148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir erindið. Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni, þetta hefur svo sem verið rætt í töluverðan tíma og er ansi brýnt að leiðrétta þau mál að það sé aldur fyrst og fremst sem skipti máli í því hvaða úrræði fólk fær.

Mig langar hins vegar til þess að spyrja í ljósi stöðunnar, af því að líkur eru á að kostnaður kunni að aukast við þetta, eðlilega, það fjölgar: Hefur verið reiknað út hver mögulegur kostnaðarauki verður? Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að fari um þann fjölda aldraðra yfir 65 ára aldri sem nú þegar er á biðlistum eftir úrræðum? Mun þetta lengja þann biðlista? Eru peningar eyrnamerktir í þetta þarfa verkefni?