148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er synd að hafa bara nokkrar sekúndur til þess að bregðast við þessu. Samkvæmt geðheilbrigðisáætlun Alþingis frá árinu 2016 er gert ráð fyrir að geðheilsuteymum sé komið á um allt land. Þar með séu þau í raun hluti af fyrsta stigs þjónustu eða fyrstu snertingu í gegnum heilsugæsluna. Þar með erum við að styrkja framlínuna og líka gagnvart öldruðum.

Við höfum verið að ræða það við heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu að líklega, og það raunar hefur komið fram hjá þeim, þurfi heilsugæslan að geta haft meira frumkvæði í því að teygja sig til aldraðra til þess að kanna þjónustuþörfina áður en hún gýs upp með látum, ef svo má að orði komast. Um leið og við erum að teygja okkur meira til þeirra sem eru heima erum við að auka möguleikana á því að fólk geti að eigin ósk verið heima lengur, því að við sjáum í sífellt ríkari mæli að þörfin fyrir þjónustu er mjög einstaklingsbundin og við leysum ekki þjónustuþörfina bara með því að byggja hjúkrunarrými.