148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir flutninginn á þessu máli. Þingmálið sem slíkt er að mörgu leyti réttlætismál, þ.e. að þeir sem hafa ekki náð 67 ára aldri geti notið þeirrar þjónustu. Mig langar hins vegar að fylgja eftir spurningu hv. þingmanns sem talaði á undan mér um geðheilbrigðismál. Það er ekki bara unga fólkið, þótt slæmt sé, sem glímir við geðheilbrigðisvandamál, það eru líka hinir eldri. Hefur ráðherra eitthvað látið meta hvaða áhrif það kann að hafa á dagdvöl og eitthvað slíkt, þ.e. ef þeim fjölgar mjög sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda, ekki síst þegar ljóst er að ráðherrann er nú búinn að skella dyrunum á Hugarafl og er að boða breytingar sem ekki hafa tekið gildi? Við hljótum að spyrja hvort ráðherrann hafi yfirleitt einhverja yfirsýn yfir það hvort þeim muni fjölga mögulega sem eru eldri og eldri borgurum sem þurfa á aðstoð að halda þegar dyrunum að Hugarafli verður lokað? Eins og ég hef skilið ráðherrann er gert ráð fyrir geðheilbrigðisteymum um land allt (Forseti hringir.) en þau eru ekki tekin til starfa ef ég veit rétt.