148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, reyndar eru sum geðheilsuteymi þegar komin á laggirnar, bæði í austurborginni og á Austurlandi, næst í röðinni eru vesturteymi á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þingmanni til upplýsingar er Hugarafl félagasamtök, en ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé að ræða um Geðheilsu – eftirfylgd sem er geðheilsuteymi sem hefur verið í gangi í Reykjavík. Það úrræði verður lagt niður samhliða því sem öllum þeim sem þar njóta þjónustu verða boðin önnur úrræði á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um aldraða og geðheilbrigðismál er það að mínu mati málaflokkur sem hefur verið allt of lítið í umræðunni. Ég tel að við þurfum að beina sjónum okkar sérstaklega að honum, ekki síst að því er varðar lyfjamálin. Við höfum séð þar mjög háar tölur sem varða t.d. bæði kvíðalyf og svefnlyf í hópi aldraðra. Ég held að það sé eitt af því sem þarf að taka til í okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi.