148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir flutninginn á þessu frumvarpi. Við getum verið sammála um það að þetta sé réttlætismál eins og kom fram í stuttu andsvari mínu áðan og svari ráðherra. Þetta er réttlætismál vegna þess að það er þörfin en kannski ekki aldurinn sem akkúrat skiptir máli þegar fólk þarf að nota þessa þjónustu. Það breytir því hins vegar ekki að þjónusta sem þessi kostar fjármuni. Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt þá er ekki gert ráð fyrir einni krónu, ekki neinum einustu fjármunum aukalega inn í þetta verkefni eða í þá þjónustu sem þarna er veitt. Við hljótum því að spyrja ráðherrann um það í ljósi þess að fram kom að ekki hefur verið eytt einu símtali á Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi þetta frumvarp. Í það minnsta svaraði ráðherrann því ekki að samráð hefði verið haft við sveitarfélögin heldur vísaði til þess að nefndin ætti að hafa samráð með því að tala við sveitarfélögin.

Sums staðar úti á landi, ég verð að viðurkenna að ég kann ekki alveg hvernig þetta er í Reykjavík, eru sveitarfélögin aðilar að dagþjónustunni og því sem við getum kallað dagvistun eða að eldri borgarar fái einhvers konar aðstoð og þjónustu að degi til en þurfi ekki að leggjast inn á stofnanir. Ráðherrann skilar algjörlega auðu þegar kemur að þessu. Við höfum ekki hugmynd um það hér á þessum stað í þessu máli öllu saman hvort af þessu hlýst einhver kostnaðarauki. Það er hins vegar alveg augljóst að biðlistarnir eftir þjónustuúrræðinu sem þarna er boðið upp á munu lengjast vegna þess að um leið og menn fara í það að bæta réttlætið með því að hleypa fleirum að þá óska að sjálfsögðu fleiri eftir þjónustunni. Til þess að geta brugðist við biðlistum þá hljótum við að þurfa að setja meiri fjármuni í verkefnið. Þeir koma greinilega ekki frá ríkisvaldinu. Ef það á að bregðast við aukinni eftirspurn sem augljóslega verður til staðar þá hljóta sveitarfélögin að eiga að leggja út fyrir því miðað við það hvernig þetta mál er sett fram.

Því hljótum við að hafa uppi spurningar og vangaveltur um hvort það sé eðlilegt að ríkið komi enn og aftur fram með mál sem getur vissulega talist réttlætismál, en varpar einfaldlega ábyrgðinni eitthvað út í samfélagið eða á þær stofnanir sem veita þessa þjónustu eða á sveitarfélögin sem taka þátt í henni. Er það eðlilegt? Er það sanngjarnt? Nei, að sjálfsögðu ekki. Það er akkúrat þetta sem er svo oft búið að tala um hér í sölum Alþingis og við alþingismenn að geti ekki verið rétt.

Ég vonast hins vegar að sjálfsögðu til þess að verði kostnaðarauki af þessu þá muni ríkisvaldið bregðast við og koma með aukna fjármuni inn í þjónustuúrræðið sem hér er um að ræða. Það getur ekki verið eðlilegt að einhver annar í rauninni borgi þetta eða þá að þær stofnanir sem veita þessa þjónustu í dag taki það einfaldlega af takmörkuðum fjármunum sínum á hverjum tíma.

Ég get alveg séð fyrir mér að það þurfi jafnvel að fara í einhverjar fjárfestingar til að bregðast við. Sums staðar er ljóst að það rými sem er veitt til þjónustu er orðið frekar þröngt og lítið, þannig að við hljótum að þurfa að bregðast við þar líka.

Enn og aftur komum við að þeim lið sem heitir það að hlutirnir kosta eitthvað. Það er mjög fallegt og gott að ná saman um það að auka réttlætið, en við hljótum að þurfa að svara líka þeirri spurningu hvernig við náum réttlætinu fram. Eitt er að leggja fram svona þingmál sem lítur fallega út, annað ef ekki er hægt að bregðast við því með góðum hætti.