148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda aðeins þessari umræðu áfram sem hv. þingmaður kemur með af því að hann talar um, og nú tala ég um reynslu hv. þingmanns líka sem hæstv. ráðherra þó að í öðru fagráðuneyti hafi verið, að það sé ástæða til að hafa af því ákveðnar áhyggjur að verið sé að leggja fram lagafrumvarp sem mun fela í sér ákveðinn kostnaðarauka, alveg sama hvernig sá kostnaður fellur til. Hann fellur ekki til beint, en á þann hátt að fleiri verða um þjónustuna. Ergo: Þá þarf að bæta í þjónustuna til þess að geta veitt hana þannig að þeir sem eftir sitja verði ekki verr staddir en fyrr, þ.e. þeir sem eldri eru en 67 ára í dag. Er það reynsla hv. þingmanns að þegar farin er þessi leið, að leggja til breytingar án þess að það liggi nákvæmlega fyrir eins og hægt er hver kostnaðaraukinn verður og hvernig þetta er fjármagnað, að sveitarfélögin muni sitja uppi með þetta?