148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að nefndarinnar bíður töluvert starf að fara yfir þetta frumvarp, þótt lítið sé í sjálfu sér. Innihaldið er eins og komið hefur fram ágætt. Það er verið að lækka þennan aldur og stækka kúnnahópinn. Það er hins vegar mikilvægt að fá fram svör við spurningum varðandi kostnaðinn og þann þrýsting sem kann að verða, varðandi það hver á að borga og hvort í þessu felst að sveitarfélögin eða þeir sem reka þessi úrræði muni bregðast við auknum þrýstingi með því að fjölga úrræðum, setja meiri fjármuni í þetta. Að sjálfsögðu hljótum við, í samræmi við umræðu um annað mál, fjármálaáætlun, að koma inn á þetta þar og hvort ekki sé rétt að gera ráð fyrir einhverjum fjármunum frá ríkisvaldinu í því ágæta plaggi. Eða ekki ágæta plaggi, því frekar slappa plaggi.

Eins og svo oft er, ég vil koma því að enn einu sinni, þá er þetta ágætismál en það er hins vegar ekki tekið alla leið. Það er ekki rætt við alla þá sem þurfa að koma að málinu, því er bara vísað á nefndina. Ég hefði haldið að það hefði verið betra fyrir hæstv. ráðherra og ráðuneytið sem vann þetta mál að hafa átt víðtækt samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og þá aðallega þá sem reka þessi úrræði.

Hér hefur verið sagt í þessum sal af heilbrigðisráðherrum oft á tíðum að þeir ætli að verja og bæta heilbrigðiskerfið o.s.frv., en það eru falleg orð. Svo þurfa menn vitanlega að standa við stóru orðin.