148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

lyfjalög.

427. mál
[16:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Þetta eru tímamót. Verið er að tala um breytingar á lyfjalögum í þá átt sem hér ræðir um. Það er alveg ljóst að að sama skapi þarf að vanda vel til verka. Ég þekki fáa málaflokka sem eru flóknari og meira torf en þessi tilteknu lög. — Ég sé fólk kinka hér kolli unnvörpum.

Mig langar til þess í fyrri umferð að spyrja um eitt. Fram kemur í greinargerðinni að „ákvæði tilskipunarinnar munu hafa í för með sér að þrengdar verða heimildir til umpökkunar og endurmerkingar lyfja, …“ Það hefur verið töluvert tíðkað hér á landi, m.a. vegna smæðar markaðarins og ekki síður vegna þeirrar kröfu að allar merkingar séu á íslenskri tungu. Þetta setur miklar skorður og tilraunir hafa verið gerðar til þess að fara fram hjá þessu eða fá einhverjar undanþágur með tilvísan til dæmis í Möltu, sem er vissulega enskt málsvæði en lítill markaður.

Ég velti fyrir mér að gott væri að fá aðeins nánari skýringu á hvað nákvæmlega er verið að þrengja. Er það eitthvað sem er mögulegt að hafi áhrif á framboð eða áhuga erlendra lyfjaframleiðenda og lyfsala á að koma með lyf á markað hér? Vegna þess að sannarlega þarf oft að toga það með töngum, þetta er ekki mjög gróðavænlegt þó okkur þyki lyfin dýr, sannarlega, hér er lítill markaður, ef hugmyndin er mögulega sú að verið sé að opna fyrir það að við föllum frá íslenskum texta og það dragi úr þörf á að endurmerkja. Mér þætti gott að heyra í fyrstu umferð um hvað nákvæmlega verið er að tala.