148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

lyfjalög.

427. mál
[16:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, og kannski geta þess almennt, vegna þess að hv. þingmaður nefnir þennan ágæta málaflokk lyfjamála, að nú stendur fyrir dyrum heildarendurskoðun á lyfjalögum og þar þurfum við að vera með alla þessa þætti undir.

Á vettvangi Norðurlanda höfum við Íslendingar haldið mjög stíft fram mikilvægi þess að hægt sé að prenta út upplýsingar á hverjum stað fyrir sig. Það er alveg gríðarlega mikilvægt í þessu samhengi öllu saman upp á það að gera að upplýsingar séu aðgengilegar. Það er kannski stærsta skrefið í því að þessi þáttur heilbrigðisþjónustunnar færist nær nútímanum, þ.e. að upplýsingar séu aðgengilegar á þeim stað þar sem viðkomandi er staddur og geti í raun og veru kallað eftir því en þurfi ekki að ná í upplýsingarnar inn í pakkningarnar á hverjum stað á hverjum tíma. Það er auðvitað mjög mikilvægt.

Almennt um þá þætti sem hv. þingmaður spyr um sem lúta að umpökkuninni og þessum breytingum þá er í farvatninu önnur reglugerð sem fylgir þessari eftir þar sem tekið er meira á þeim þætti. Ég vonast til að það sjáist í þinginu fyrr en síðar. En varðandi þessa tilteknu innleiðingu þá erum við komin í skömm gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu og þurfum í raun og veru að koma þessu í kring hið fyrsta og erum neydd til þess, ef svo má að orði komast, að gera það. En ég tel að þetta sé réttarbót þannig að við eigum að klára þessa breytingu.