148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

lyfjalög.

427. mál
[16:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvar hæstv. ráðherra og skil það eiginlega sem svo að þetta ákvæði sé ekki alveg ljóst en verði skýrt í frumvarpi sem á eftir kemur. Þá er það bara svoleiðis. En þetta skiptir máli og ég segi það vegna þess að þetta er eilífðarbarátta um að við uppfyllum sem markaðssvæði þessar stífustu reglur vegna þessa viðkvæma markaðar og falsana, en að sama skapi að þetta sé ekki það íþyngjandi að hér verði bara ekki fýsilegur markaður fyrir sölu eða viðskipti með lyf. Það skiptir miklu máli. Ég mun bíða spennt eftir næstu umferð.

Mig langar eiginlega að hnykkja út með þessu, það er svolítið sem kollegi minn kom hérna inn á áðan, og spyrja hvort lausasölulyf séu einhvers staðar í farvatninu, aukið frelsi á markaði. Nú er netverslunin komin, en er einhvers staðar verið að íhuga að slaka á klónni varðandi lausasölulyf?