148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[17:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessum ræðustól eins og alls staðar annars staðar fljúga menn eins og þeir eru fiðraðir. Þegar talið berst að undangreftri undan dómstólum landsins held ég að hv. þingmaður sé meðal þeirra sem mættu íhuga hvort ræðumennska hans um þetta mál geti átt hlut að máli.

Hv. þingmaður hefur ekki efnislegar athugasemdir við þetta frumvarp. Það kann vel vera að hann hafi þær ekki, hafi ekki kynnt sér það eða vilji ekki hafa skoðun á því. Ég hvet hann hins vegar til að kynna sér þetta frumvarp. Það eru margar leiðir færar þegar kemur að því að skipa dómara í þennan dómstól eins og aðra. Ég vek þó athygli á því, ef menn hafa ekki áttað sig á því, að þetta er auðvitað ekki eiginlegur dómstóll í þeim skilningi að hann kveði upp efnislega dóma heldur er þetta dómstóll sem falið er að kveða upp úr um það hvort það séu málefnaleg og lögbundin sjónarmið sem geti leitt til þess að dómur sé tekinn upp, en kveður alls ekki upp neitt um niðurstöðuna við slíka endurupptöku.

Að því leyti er þessi dómstóll öðruvísi en aðrir dómstólar. En allt að einu er við skipan dómara hægt að fara margar leiðir. Hér er lögð til ein leið, það gætu verið margar aðrar leiðir sem kæmu til greina. Hún gæti til dæmis komið til greina sú leið að þessir dómstólar, hvert einasta dómstig, tilnefni ekki tvo fulltrúa eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu heldur verði einfaldlega dregið úr nöfnum sitjandi dómara til að sitja í Endurupptökudómi. En þetta eru allt ágæt álitaefni sem ég held að hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætti að (Forseti hringir.) taka til umfjöllunar og skoðunar. Ég tek öllum ábendingum um það sem betur mætti fara í þessu frumvarpi, hafi menn einhverjar tillögur í þeim efnum, fagnandi.