148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[17:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hætta mér í ræðu þótt hæstv. dómsmálaráðherra myndi kannski gjarnan vilja að ég talaði um eitthvað allt annað eða væri að gera eitthvað sem hæstv. dómsmálaráðherra fyndist frekar að ég ætti að vera að gera. Ég ætla að láta það eiga sig. Frekar að fara aðeins yfir grundvallaratriðin sem við hljótum að velta fyrir okkur þegar hæstv. dómsmálaráðherra leggur fram mál um dómstóla.

Nú veit ég að fólk gleymir hlutum sem gerast í pólitík. Það er alveg eðlilegt. Fólk hefur fleira við líf sitt að gera en að velta sér endalaust upp úr því sem hefur gerst í pólitíkinni. En það sem kallað er Landsréttarmálið má einfaldlega ekki gleymast. Lexían af því máli er hvernig íslensk stjórnmál líta út í grunninn. Hvernig það er í grundvallaratriðum einkennandi fyrir stjórnarfarið á Íslandi, og ég ætla bara að segja sér í lagi fyrir stjórnarhætti Sjálfstæðisflokksins; ábyrgðarleysi, algert ábyrgðarleysi. Ekki bara smá ábyrgðarleysi heldur algert.

Við hæstv. dómsmálaráðherra töluðum um þetta einhvern tíma í útvarpsviðtali. Í því útvarpsviðtali vildi hæstv. dómsmálaráðherra meina að ábyrgð ráðherrans fælist í því að mæta í viðtöl og bjóða sig fram í kosningum. Það segir í raun og veru alla söguna að mínu mati. Að það sé bara skoðun sem dómsmálaráðherra í lýðveldinu Íslandi geti haft og sagt það upphátt fyrir framan alþjóð. Og heill stjórnarflokkur kinkar kolli, finnst það í lagi, bara eðlilegt, enda hefur sá flokkur hagað sér þannig, alla vega eins lengi og ég man eftir mér, þ.e. eftir stjórnmálum yfir höfuð, sem er reyndar ekkert mikið skemmra.

Hvað varðar þetta mál efnislega, sem ég hef ekki skoðað alveg í gegn en eitthvað af því, þá líst mér ágætlega á það sem þar stendur. Ég hefði ekkert svakalegar áhyggjur af þessu ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hérna í pólitíkinni lærum við ekki. Við breytum ekki hlutum sem greinilega virka ekki, eða virka þannig að Alþingi greiðir atkvæði, klofið í herðar niður, með 31 atkvæði gegn 30, um nýtt dómstig í bullandi ágreiningi, meðfram viðvörunarorðum innan úr ráðuneytinu, úr nefndum Alþingis, og síðan staðfest af héraðsdómi og Hæstarétti í lokin.

Og svarið er: Hæstv. dómsmálaráðherra mætir í viðtal og býður sig fram aftur. Þetta er sem sé ábyrgðin. Þegar svona hegðun í stjórnmálum er borin fram eins og hún sé á einhvern hátt í lagi eða boðleg þá tortryggir maður svona mál. Þetta er ekki mjög stórt mál, ekki viðamikið frumvarp. Maður er ekki lengi að renna í gegnum það, efnislega. En þetta er samt Endurupptökudómur. Þetta er einhvers konar dómsvald. Þá skiptir máli að fólk vandi sig, að fólk hlusti á viðvörunarorð, alla vega einhvern tímann, og svo getur fólk alveg verið ósammála. Það er allt í góðu. Það eina sem þurfti seinast var, hvað? Að bíða. Það var meira að segja borin fram lausn á þessu. Það langaði engan til að fara að skipa Landsrétt, engan í stjórnarandstöðunni, í bullandi ágreiningi.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson stóð hér, sællar minningar, og útskýrði hvað þurfti. Það þurfti bara tíma. Sem síðan hefur komið í ljós að hefði alveg dugað, einfaldlega tíma til að hæstv. ráðherra gæti farið eftir lögum eins og búið var að benda á að ráðherra ætti að gera. Því var hafnað. Af hverju? Af hverju mátti þetta ekki vera í lagi? Af hverju gat hæstv. ráðherra ekki tekið sér þann mánuð til að gera þetta rétt? Og þá hefðum við samþykkt nýtt dómstig með öllum greiddum atkvæðum. Væntanlega öllum viðstöddum, geri ég ráð fyrir. Af hverju mátti það ekki? Vegna þess að það þurfti ekki. Það þarf ekki á Íslandi. Það er óþarfi á Íslandi. Það er allt í lagi á Íslandi að meiri hlutinn trukki hlutunum í gegn, skipi nýtt dómstig í bullandi ágreiningi, meðvitaður um viðvörunarorðin sem voru látin falla þar áður.

Nú veit ég að hæstv. ráðherra finnst kannski ekki nógu gott að ég sé ekki að tala efnislega um málið sem hún vill tala um, heldur meira um umgjörðina í kringum það hvernig við högum lagasetningu og dómstigum, dómskerfinu okkar. En hæstv. ráðherra verður bara að sitja undir því og því miður hv. þingmenn einnig, og þeir sem kæra sig um að hlusta. En þetta er grundvallaratriði. Ef við getum ekki sýnt fram á að yfirvöldum sé treystandi til að setja nýtt dómstig eigum við að vera hrædd. Þá þurfum við að tortryggja svona lög, svona frumvörp, jafnvel þótt þau séu góð, jafnvel þótt þau hljómi ágætlega. Við neyðumst til þess. Því að hinn kosturinn er þessi að við segjum bara ókei, að ég segi við hæstv. dómsmálaráðherra: Ókei, ég skal bara lesa þetta og vera ekki að minnast á þetta Landsréttarmál aftur, sem ég veit að hæstv. ráðherra finnst ekki einu sinni óþægilegt, sýnir ekki einu sinni þá lágmarksvirðingu að finnast það í það minnsta pínulítið óþægilegt. Að Alþingi hefði bara hlustað á þessi viðvörunarorð og hunsað þau líka og greitt atkvæði með vilja hæstv. dómsmálaráðherra. Það hefði getað verið þannig. Það hefði verið hæstv. dómsmálaráðherra og Sjálfstæðisflokknum sérlega að skapi, vænti ég. Nema kannski ekki. Ég held að þeim sé bara sama. En það gengur ekki. Mönnum á ekki að vera sama um það hvort yfirvöldum sé yfir höfuð treystandi til að skipa dómara eða að það líti þannig út, því að það er til gömul speki; ekki er nóg að réttlætinu sé fullnægt, það þarf að sjást að því sé fullnægt.

Það er alveg eins með pólitíkina. Ástæðan fyrir því að fólki finnst pólitík vera svona mikið drullusvað, fyrirgefið orðbragðið, virðulegi forseti, er sú að fólk sér ekki ábyrgðina. Það er auðvelt að sjá ekki ábyrgð þegar hún er ekki til staðar. Hún verður sjaldan jafn blöskrunarlega og óþægilega og pínlega og hörmulega og sorglega augljós og í fyrrnefndu Landsréttarmáli.

Þá velti ég fyrir mér hvernig ábyrgur þingmaður ætti að nálgast þetta mál miðað við það sem á undan er gengið, miðað við hegðun hæstv. dómsmálaráðherra í Landsréttarmálinu. Ég held að best sé að tortryggja þetta við hvert einasta skref. Reyna að finna glufur, finna eitthvað sem hæstv. dómsmálaráðherra gæti misnotað til að skipa einhvern sem hæstv. dómsmálaráðherra finnst frekar að eigi að vera dómari heldur en eftir einhverju ferli sem annars er búið að samþykkja. Ókei, það er ágætishvati til að lesa þetta betur en ella, leggja meiri tíma í þetta. En gott væri að þurfa ekki að nálgast mál eins og þessi með þeirri svakalegu, algeru tortryggni sem a.m.k. ég sýni gagnvart hæstv. dómsmálaráðherra eftir það sem á undan er gengið. Því að hvert einasta skref, hvert einasta tækifæri, notaði hæstv. dómsmálaráðherra til að taka rangar ákvarðanir. Og sér ekki eftir neinu af því. Ég spurði hér í tvígang áðan, í seinna skiptið mjög skýrt að því er ég taldi, í andsvari við ræðu hæstv. dómsmálaráðherra, jú, það komu tvær mínútur af orðum, vissulega, en ekki kom svar við spurningunni sem var hvort hæstv. dómsmálaráðherra myndi gera eitthvað öðruvísi ef hún stæði frammi fyrir sömu aðstæðum og voru hér í lok maí 2017.

Hvað á góður þingmaður að hugsa? Hvað er rökrétt að hugsa? Ja, kannski myndi hún gera þetta eitthvað öðruvísi. Kannski. Kannski myndi hún nota þetta tækifæri til að gera eitthvað rétt. En ég efast um það. Ég held ekki að það sé rökrétt. Ég held að það væri órökrétt. Ég held að það sé miklu rökréttara að draga þá ályktun að hæstv. dómsmálaráðherra hafi ekkert lært af þessu, myndi gera nákvæmlega það sama í sömu aðstæðum og muni beita sér ranglega og brjóta lög þrátt fyrir varnaðarorð — og vera bara alveg sama. Vera bara ósammála Hæstarétti.

Það sem er náttúrlega verst af öllu er ekki í sjálfu sér það. Dómsmálaráðherrar koma og fara. En það er að þetta þyki í lagi. Það er það sem fer í taugarnar á mér. Að fólki finnist þetta yfir höfuð í lagi. Mér finnst það ekki í lagi og þekki mjög marga sem finnst þetta ekki í lagi. En það er þó alveg þó nokkur hópur fólks sem finnst þetta í lagi og ekki vera neitt mál, bara eitthvert svona stjórnarandstöðutuð, leið til að sóa tíma. En ekki til að tala um skipan nýs dómstigs hvers trausti er grafið undan, því að ráðherra þurfti að fá að gera það sem hann vildi. Og meiri hlutinn þurfti að fá að gera það sem hann vildi, þá sem ávallt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vona að einn daginn líti kynslóð framtíðarinnar aftur til þessa tíma og hugsi með sér: Fyrirgef þeim, því þau höfðu ekki hugmynd um hvað þau voru að gera.