148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[17:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna nokkur atriði varðandi framsögu ráðherra og efni frumvarpsins. Ráðherra nefndi að vandamálið við endurupptökunefndina, sem er verið að leysa með þessu, er tengt stjórnarskránni. Afleiðing þess er sú að þessi dómstóll tilheyrir dómsvaldinu, eins og sagt er í greinargerð.

Nú sagði hæstv. ráðherra eitthvað á þá leið í framsögunni að þessi dómstóll skyldi ekki skila neinum niðurstöðum líkt og önnur dómstig. Vissulega er það þannig í lögunum að endurupptökudómur kveður upp úrskurð. Það liggur í hlutarins eðli, miðað við að þessi dómstóll tilheyrir dómsvaldinu og niðurstöður hans eru dómsúrskurður, að hann lýtur þeim lögmálum sem aðrir dómstólar gera einnig, málsmeðferðarlega séð. Það er þó örugglega eitthvert tæknimál sem hægt er að fara nánar út í en ég er ekki einn af þessum löglærðu hérna, ekki úr lögfræðingaflokki.

Ég geri einnig smáathugasemdir varðandi skipun dómaranna. Nú er sagt í frumvarpinu að fjórir séu skipaðir dómarar. En lagt er til að einungis þrír dómarar taki þátt í meðferð hvers máls og að sá dómandi sem tilnefndur er af því dómstigi sem dæmdi það mál sem óskað er endurupptöku á verði ekki einn þeirra.

Nú er það svo að hvert mál getur hafa farið alla leiðina í gegnum dómstigin alveg upp í Hæstarétt. Það er Hæstiréttur sem kveður upp lokadóm sem gæti í raun verið sá sami og Hæstiréttur og Landsréttur kváðu upp. Þó að hæstaréttardómarinn sé ekki í þeim endurupptökudómstól eru þar dómarar frá Hæstarétti og héraðsdómi, dómstigum sem komu að því máli á einhverju stigi þess; komust jafnvel að sömu niðurstöðu, hún var kannski staðfest alla leið. Ef koma á í veg fyrir einhvers konar árekstra við samdómendur á því dómstigi sem málið endaði á er það samt enn til staðar þar sem málið hlaut jafnvel meðferð í héraði og Landsrétti eða bara í héraði og Landsrétti en ekki Hæstarétti, hvernig sem það er.

Ég tek ágætlega í þær hugmyndir að eðlilegt væri að draga um þetta, hverjir sitja þarna í hvert skipti. Það getur verið lausn á því. En vandamálið er samt til staðar, þ.e. dómarar koma óhjákvæmilega til með að sitja í þessum Endurupptökudómi þar sem málið hefur hlotið meðferð á dómstigi þeirra meðal samdómara. Það er gott að hafa það til hliðsjónar og spurning hvort hægt væri að hafa þessa dómara sem auglýst er eftir í meiri hluta; að það væri kannski bara einn af þeim dómurum sem eru skipaðir og tveir sem auglýst hefur verið eftir í hvert skipti; einhver þannig skipting í staðinn.

Að lokum: Ég er í fjárlaganefnd og kíki alltaf á mat á áhrifum. Ekki er gert ráð fyrir að það séu nein fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð af því að þetta kemur í staðinn fyrir endurupptökunefndina. En í greinargerð um það, með leyfi forseta, stendur:

„Í því sambandi er sérstaklega bent á að áfram er gert ráð fyrir að þrír aðilar taki þátt í meðferð hvers máls fyrir sig og fái dómendur einungis greitt fyrir þau mál sem þeir taka sæti í, og þá samkvæmt tímagjaldi sem ákveðið er af kjararáði.“

Kemur kjararáð inn í þetta líka? Við erum með Landsrétt sem hangir yfir þessu eins og draugur og svo bætist kjararáð við líka.

Miðað við nýlegar ákvarðanir hjá kjararáði, t.d. um laun þingmanna, efast ég um að tímagjaldið verði það sama og það er núna. Ég veit ekki hvernig greitt er fyrir þetta núna en ætla að leyfa mér að giska á að tímagjald sem kjararáð ákveður verði hærra, af einhverjum orsökum. Það er bara byggt á reynslunni hvað þessi mál varðar og landsréttardraugurinn sem slíkur er einnig byggður á reynslunni í meðferð þessara mála. Það er ástæðan fyrir því að ég nefni það hérna. Ég er ekki viss um að þessi staðhæfing, um að þetta hafi engin fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð, sé sönn.

Að lokum hef ég almenna athugasemd um lagafrumvörp af þessari stærð þar sem mjög margar af breytingum frumvarpanna eru á þessa leið: Í stað orðsins „jaríjaríjarí“ kemur orðið „jaríjaríjarí“. Það er þó nokkuð mikið af slíkum breytingarákvæðum sem gera að verkum að maður glatar samhenginu. Maður þarf að fara í upprunalegu lögin og skipta út handvirkt: Hvernig fæ ég heildartextann núna? Hvernig lítur hann út? Er ég að missa af einhverju samhengi sem ég hefði ef heildartextinn birtist einfaldlega í lagafrumvarpinu? Nú erum við með þingsályktun, sem var samþykkt á þingi, um tölvutæk gögn, tölvutæk lög í rauninni; lagatexta, sem mundi hjálpa okkur mikið til að sjá heildarlögin eins og þau líta út ef þau væru samþykkt miðað við lagatextann eins og hann lítur út núna. Þetta blandast inn í þær kvartanir sem við höfum, alla vega ég, varðandi þau þingmál sem eru að detta inn, þau eru mörg hver ansi stór og nokkur einmitt á þennan hátt. Þetta kemur aðeins í veg fyrir að maður geti sett sig inn í málið á hraðan og einfaldan hátt. Maður þarf að fara í rosalega mikla handavinnu, tímafreka handavinnu, við að púsla út úr lagabreytingunum hver áhrifin á lögin verði að lokum. Síðan þarf maður að vera viss um að það sé rétt gert því að það er ekkert sjálfsagt í því. Sumar breytingarnar eru ansi flóknar, fara í einhverja liði og setningar o.s.frv., 3. mgr. „jaríjaríjarí“ og 2. liður og ég veit ekki hvað. Maður týnist stundum mjög auðveldlega þegar þetta er orðið flókið ef maður er ekki sjóaður í að lesa hvernig lög eru uppbyggð.

Ég myndi vilja hvetja forseta í þessu tilviki til að spýta aðeins í lófana varðandi þessa þingsályktun um tölvutækan lagatexta sem við höfum til að koma þessu í gagnið. Það myndi spara okkur þingmönnum ansi mikla vinnu við að reyna að ná samhenginu í þeim lögum sem verið er að leggja fram. Það er nefnilega nægilega mikil vinna að lesa sig í gegnum öll lögin sem koma, hvað þá að bæta því við að þurfa að púsla þeim saman. Þetta er eins og leikskóladót; maður fær ósamansett púsl og þarf að skoða það en getur ekki skoðað eitt og eitt púsl og áttað sig á samhenginu. Ég tel nauðsynlegt að við förum að hætta þessu, sérstaklega í lögum sem eru svona fyrirferðarmikil og með svona margar einstakar breytingar fram og til baka. Þegar það eru ein til tvær greinar þar sem skipt er út einni setningu er þetta ekkert flókið, en þegar það er orðið svona viðamikið minni ég einfaldlega á þessa þingsályktun og hvet forseta til að láta eitthvað verða úr henni.