148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[18:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls, verið málefnalegir og viljað ræða efni þessa frumvarps sem full ástæða er til að ræða í þessum þingsal en einnig í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Það er meginregla og algert grundvallaratriði í réttarríkinu að dómur sé endanleg niðurstaða í ágreiningsmáli. Það er meginregla sem gott er að hafa í huga, þannig að dómur bindi algeran endi á þá þrætu sem er verið að leysa úr. Það kunna hins vegar að vera uppi slík tilvik, koma upp síðar, að það þyki svo augljóst að mál hafi með einhverjum hætti ekki verið borið réttilega undir dómstólinn, þ.e. öllu heldur að forsendur fyrir þeim dómi hafi ekki verið allskostar réttar og ekki sé hægt að kenna aðilum máls um. Það er þá líka einn þáttur í réttarríkinu að menn eigi þess kost að fá kveðið upp úr um hvort forsendur séu fyrir því að taka upp dóm.

Eins og ég nefndi í framsögu minni hefur þessu verið þannig háttað frá árinu 2013 að stjórnsýslunefnd, hluta af framkvæmdarvaldinu, er falið að kveða upp úr um þetta. Það var í kjölfar samþykktar Alþingis á þingmannafrumvarpi sem var lagt fyrir árið 2013 sem kvað á um þetta. Það var ekki bara þannig að þar með væri það tekið úr höndum Hæstaréttar, sem fram að þeim tíma hafði haft það hlutverk að veita umsögn um endurupptökubeiðnir — 2013 var þessari stjórnsýslunefnd komið á laggirnar. Alþingi samþykkti einnig, ekki í nokkrum einasta ágreiningi — eða þeir sem samþykktu það þingmannamál, sem voru reyndar ekki allir þingmenn, þvert á móti — en þingið samþykki þá að kæmist þessi stjórnsýslunefnd að þeirri niðurstöðu að forsendur væru til að endurupptaka dóm þá félli hinn nefndi dómur þá þegar úr gildi. Þetta gerði Alþingi og það hvarflaði að nokkrum þingmönnum að leggja fyrir Alþingi að samþykkja það og Alþingi samþykkti með þeim þingmeirihluta sem þá var við lýði. Að sjálfsögðu komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þarna væri gróflega vegið að stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinganna og brotið gegn stjórnarskrá og sjálfstæði dómstólanna með þessum hætti.

Það var nú ekki um að ræða að það yrði. Nú viðurkenna menn, og ég vona að það sé óumdeilt hér, að sú breyting sem hér er lögð til færi þessi mál í miklu betra form, alveg örugglega miklu betra form en var með nefndri stjórnsýslunefnd sem var sett á laggirnar 2013 en líka í miklu betra form en það sem hafði þekkst fyrir þann tíma.

Ég vil árétta að þegar ég á við að þessi endurupptökudómstóll kveði ekki upp efnislega niðurstöðu í máli þá er ég að vísa til þess að hann tekur eingöngu afstöðu til þess hvort tilefni sé til að endurupptaka málið. Það kann síðan að vera að málið verði endurupptekið í kjölfarið og nákvæmlega eins dómur falli. Eða allt öðruvísi dómur. Það er algerlega á forræði dómstólsins sjálfs, viðeigandi dómstóls sem tekur þá upp þann dóm, en endurupptökudómstóllinn kveður ekki upp efnislega dóma heldur kveður upp úr um hvort dómur skuli endurupptekinn. Þetta er kannski svona lagatæknilegt atriði. Þó þannig að mér fannst rétt að árétta að þetta er ekki dómstóll í þeirri eiginlegu merkingu að hann leggi efnislegt mat á ágreiningsefni.

Menn hafa einnig velt því fyrir sér hvernig eigi að skipa dómara í þennan dómstól. Ég fagna því mjög að menn hafi áhuga á að velta því raunverulega fyrir sér hvernig dómari er valinn í þennan dómstól, jafnvel þótt, að því sögðu, að þetta sé ekki þess háttar dómstóll sem kveður upp efnislega niðurstöðu í málum.

Hér er farin sú leið að fela öllum dómstólunum þremur að tilnefna einhvern úr sínum hópi. Svo yrði auglýst eftir fjórða manninum. Ég held að margar leiðir séu færar í þessu. Ég hef nefnt að það geti verið málefnalegt að fela þessum dómstigum að draga hreinlega úr nöfnum; að allir dómarar við tiltekinn dómstól, segjum samt með tiltekna reynslu að baki, t.d. dómarar við héraðsdóm sem hafa verið dómarar fimm ár, séu settir í pott sem dregið er úr og þannig sé róterað svo að menn sitji þarna, eins og reyndar er kveðið á um hér, ekki of lengi. Þannig sé þessu skipt út. Þetta er ein leiðin. Það er líka hægt að fara þá leið að hafa ekki einstakling þarna sem er utan við dómstólana heldur fjölga bara dómurum úr öðru dómstiginu til að kveða upp endurupptökudóma. Ég nefni þetta nú bara. Ég held að það væri gagnlegt ef nefndin myndi fjalla um þetta sérstaklega.

Hvað kynjasjónarmiðin varðar er hér sérstaklega tekið fram að tilnefningaraðilar þurfi að tilnefna bæði konu og karl. Því var velt hér upp í ræðu eins hv. þingmanns hvort tilefni væri til að kveða líka á um að ráðherrann skyldi vera bundinn við að skipa jafnt í. Ég sé ekki ástæðu til að tiltaka það sérstaklega í lögunum. Eins og ég hef áður nefnt í umræðum við skipan dómara tel ég að ráðherrar séu bundnir af kynjasjónarmiðum í þessum efnum, svo sem lögum um jafna stöðu og réttindi karla og kvenna bjóða. Sá ráðherra sem hér stendur hefur lagt sig í líma við að skipa jafnt hlutfall karla og kvenna í m.a. hinn nýja dómstól, Landsrétt, þrátt fyrir mikil ramakvein frá einstökum þingmönnum.

Það geta líka verið þannig aðstæður og ég vek athygli á því að það er ekki víst að allir dómstólarnir hafi tök á að tilnefna bæði konu og karl þótt það til framtíðar líti út fyrir að það verði alla jafna. Þetta vildi ég segja um þetta.

Ég vil síðan að lokum nefna að ég get tekið undir það sem kom fram í máli eins hv. þingmanns að það kann að vera snúið að lesa út úr þessum frumvörpum. Ekkert þessu fremur en öðrum, það er almennt svona. Ég hef óskað eftir því í dómsmálaráðuneytinu að þegar það undirbúi frumvarp sé ávallt undirbúinn svokallaður texti á ritvinnsluskjali sem sýnir breytingarnar, gildandi lagatexta með innfelldum breytingartillögum. Það mun ekki standa á dómsmálaráðuneytinu að senda slíkt skjal til viðeigandi nefndar sem hefur málið til umfjöllunar. Ég hvet hv. þingmenn til að nýta sér það. Svo bendi ég á að hv. þingmenn sjálfir hafa starfsmenn, allir stjórnmálaflokkarnir, til þess að inna svona vinnu af hendi en ég hef ekki orðið vör við annað en að starfsmenn þingsins séu reiðubúnir til að aðstoða þingmenn við alla þessa vinnu og hefur ekki þurft að biðja oft um slíkt í nefndum, að svoleiðis skjöl séu útbúin. Ég tel hins vegar ekki að tvíverknaður eigi að vera í gangi. Ef þetta er til í ráðuneytunum, ég tala þá bara fyrir dómsmálaráðuneytið, mun ég leggja mig fram um að koma þessum texta á framfæri við þingið.