148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[18:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nefnt að ég telji að ráðherra sé alla jafna bundinn af lögum um jafna stöðu og rétt kvenna og karla, við allar ákvarðanir, m.a. skipanir í ráð og nefndir. Ég vil hins vegar líka benda á að hér er gert ráð fyrir að skipunartími dómenda sé sex ár en þó þannig að annað hvert ár renni út skipunartími eins þeirra þriggja sem koma úr röðum embættisdómara.

Það er því nokkur velta á dómurum í þessum dómstól. Jafnvel þótt tilnefndir séu jafn hæfir dómarar — allir eru þeir auðvitað hæfir, sitjandi embættisdómarar, annaðhvort væri það nú — þá kunna að vera uppi þannig aðstæður, og nú er ég bara að velta fyrir mér einhverjum aðstæðum sem kunna að koma upp, að í dóminn hafi valist dómarar sem hafa kannski sérþekkingu á tilteknu réttarsviði umfram annað réttarsvið. Og svo kann jafnvel að koma upp eitthvert réttarsvið sem við þekkjum ekki í dag sem brýnt væri að hafa í dómstól sem þessum. Það kunna því að koma upp einhver slík sjónarmið þar sem rétt væri — jafnvel þótt það væru þrjár konur í dómstólnum gætu verið einhver rök fyrir því að skipa fjórðu konuna næstu sex árin, þar sem vitað er að ein konan úr hópi hinna þriggja hverfur úr dómstólnum kannski eftir eitt ár eða svo.

Aðstæðurnar eru þannig það er ekki alveg hægt að útskýra þær í eitt skipti fyrir öll. Ég tel að löggjöf í dag eigi að tryggja þau sjónarmið sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af.