148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

almenn hegningarlög.

458. mál
[18:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum.

Tilgangur frumvarpsins er að tryggja að íslensk refsilöggjöf sé annars vegar í samræmi við samning um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum sem gerður var á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar árið 1997 og hins vegar samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn spillingu frá árinu 2003.

Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á almennum hegningarlögum. Í fyrsta lagi er lagt til að hámarksrefsing fyrir brot gegn 109. gr. laganna, þ.e. að bera mútur á innlendan eða erlendan opinberan starfsmann, verði þyngd úr fjögurra ára fangelsi í fimm ára fangelsi. Með þeirri breytingu verður minni munur á refsiramma slíkra brota annars vegar og brota gegn 128. gr. laganna hins vegar, en þar er fjallað um mútuþægni innlendra eða erlendra opinberra starfsmanna. Hámarksrefsing fyrir brot gegn því ákvæði er núna sex ára fangelsi. Ekki þykir hins vegar aftur á móti rétt að leggja til að hámarksrefsing vegna þessara brota sé sú sama. Þegar litið er til ríkra trúnaðarskyldna opinberra starfsmanna og þeirra almannahagsmuna sem þeim hefur verið falið að standa vörð um verður ekki litið öðruvísi á en svo að þegar aðili í þeirri aðstöðu krefst eða tekur við mútum fremji hann alvarlegra brot en sá sem þær býður. Það er mikilvægt að refsirammi ákvarðana endurspegli mismunandi eðli brotanna að þessu leyti.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 264. gr. a almennra hegningarlaga en þar er í 1. málsgrein fjallað um mútuboð til stjórnanda eða starfsmanns fyrirtækis í atvinnurekstri, þar á meðal fyrirtækja að hluta eða í heild í opinberri eigu. Í 2. málsgrein ákvæðisins er fjallað um mútuþægni stjórnanda eða starfsmanns slíks fyrirtækis. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig að það nái ekki einungis til innlendra fyrirtækja heldur einnig til erlendra. Ekki þykir aftur á móti rétt eða nauðsynlegt að tengja hugtakið opinber starfsmaður sérstaklega við ákvæðið, enda nær það til stjórnenda eða starfsmanna fyrirtækisins að hluta eða heild í opinberri eigu, óháð því hvort hann hafi formlega stöðu sem opinber starfsmaður eða ekki.

Í þriðja lagi er lagt til að hámarksrefsing fyrir brot gegn 264. gr. a, bæði að því er varðar boð um mútur og kröfu um eða viðtöku þeirra, verði sá sami og gildir um opinbera starfsmenn. Hámarksrefsing samkvæmt 264. gr. a er nú þriggja ára fangelsi en lagt er til að hún verði hækkuð í fimm ár fyrir mútuboð og sex ár fyrir mútuþægni. Með því er komið til móts við tilmæli OECD um að þyngja refsingar fyrir mútubrot og samræmi verður á milli refsinga vegna brota í almennum atvinnurekstri og í opinbera geiranum. Rökin fyrir þessu eru að brot gegn 264. gr. a almennra hegningarlaga getur fyllilega jafnast á við brot gegn 109. gr. og 128. gr. að alvarleika, enda geta fyrirtæki sem starfa á markaði, þar með talið þau sem að hluta eða öllu er í eigu opinberra aðila, haft veruleg ítök og jafnvel verið ráðandi í einstökum atvinnugreinum. Brot af þessari tegund eru þannig til þess fallin að stríða gegn heilbrigðu viðskiptalífi og almannaheill. Þá er mikilvægt að styrkja enn frekar ákvæði íslenskra laga um erlend mútubrot. Þau brot eru eðli málsins samkvæmt framin þvert á landamæri, geta verið umfangsmikil og vega m.a. að heilindum í alþjóðlegu viðskiptalífi.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.