148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Ferðamálastofa.

485. mál
[18:36]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um Ferðamálastofu. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að núgildandi lög um skipan ferðamála, nr. 73/2005, falli brott. Frumvarpið felur sem sagt í sér nýja löggjöf um Ferðamálastofu, ferðamálaráð og hluta leyfisveitinga í ferðaþjónustu. Því er ætlað að standa sjálfstætt en til hliðar við frumvarp við pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem ég mun mæla einnig fyrir á eftir.

Helstu breytingar frá gildandi lögum um skipan ferðamála snúa á stjórnsýslu málaflokksins, breytingum á hlutverki og markmiðum Ferðamálastofu, skyldu ferðaþjónustuaðila til að setja sér öryggisáætlun, dagsektarheimild til handa Ferðamálastofu og flutningi ákvæða yfir í lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Hlutverk Ferðamálastofu er afmarkað frekar sem er í samræmi við niðurstöðu Ríkisendurskoðunar í skýrslu um stjórnsýslu ferðamála frá október 2017. Fyrsti kafli frumvarpsins fjallar um stjórnsýslu ferðamála og sérstakt ákvæði afmarkar stjórnsýslulega stöðu Ferðamálastofu sem ferðamálastofnunar sem starfar í umboði ráðherra. Sérstakt ákvæði fjallar jafnframt um megintilgang stofnunarinnar sem er að fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustunnar sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi. Í þeirri þróun er nauðsynlegt að taka tillit til þolmarka íslenskrar náttúru og samfélags, ásamt því að efla samræmingu, greiningar og rannsóknir í ferðaþjónustunni.

Þá eru verkefni Ferðamálastofu betur skilgreind í níu liðum þar sem sérstaklega er afmarkað hlutverk stofnunarinnar hvað varðar yfirsýn, túlkun og greiningu á þörf fyrir rannsóknir á sviði ferðaþjónustu. Ný verkefni á Ferðamálastofu tengjast enn fremur öryggisáætlunum og umsjón með starfi nýs ferðamálaráðs. Þá er hlutverki ferðamálaráðs breytt verulega frá því sem nú er, það eflt og ásýnd þess breytt.

Fulltrúar í ferðamálaráði verða níu talsins. Í ráðinu munu sitja fulltrúar þeirra lykilráðuneyta sem tengjast ferðaþjónustunni og skulu þeir hafa tengsl við málefnasvið viðkomandi ráðuneytis og gæta þess að sú samhæfing sem næst með setu í ráðinu skili sér áfram í hlutaðeigandi ráðuneyti. Aðrir fulltrúar verða frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum ferðaþjónustunnar. Hlutverk ráðsins verður enn fremur skilgreint á nýjan hátt þótt því verði áfram ætlað að vera ráðgefandi fyrir ferðamálaráðherra. Ráðið skal þannig vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanagerð og langtímastefnumótun í ferðamálum ásamt því að hafa og veita ákveðna yfirsýn yfir ferðaþjónustuna, framtíðarþróun og samspil greinarinnar og samspil stjórnvalda. Þá mun ráðið geta starfrækt fagráð á sviði markaðsmála ferðaþjónustunnar, samgöngumála og umhverfismála svo dæmi séu tekin.

Gert er ráð fyrir að nýtt ferðamálaráð taki til starfa 1. janúar 2020. Ástæðan fyrir því er sú að við erum með starfandi Stjórnstöð ferðamála en gert er ráð fyrir því nú að hún lifi til október 2020. Það er ástæðan fyrir því að dagsetningin hér er önnur og seinni en gildistaka laganna, sem er 1. júlí 2018, þ.e. svo að það sé ákveðin samfella í þeirri breytingu og þetta tali saman, það sé ekki verið að bæta við.

Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á hugtökum, skilgreiningum og leyfum í ferðaþjónustu en breytingarnar koma til m.a. vegna innleiðingar á tilskipunum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 2015/2302/ESB, samanber frumvarp til laga með sama heiti sem ég mun mæla fyrir á eftir þessari framsögu.

Þeir aðilar sem hingað til hafa haft ferðaskrifstofuleyfi og þar með leyfi til að selja pakkaferðir munu fá útgefið nýtt skipuleggjendaleyfi við gildistöku laganna. Þeir sem hingað til hafa haft ferðaskipuleggjandaleyfi munu þurfa að meta sitt framboð af ferðum með tilliti til þess hvort þær ferðir falli undir gildissvið laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Þeir munu annaðhvort falla undir það að vera ferðasali dagsferða ef ferðirnar fela ekki í sér pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun eða falla undir að vera skipuleggjandi sem selur m.a. pakkaferðir.

Í dag er enn fremur gerð krafa um að bókunarþjónustur og upplýsingamiðstöðvar skrái starfsemi sína hjá Ferðamálastofu. Í frumvarpinu er fallið frá kröfu um skráningu á þessari starfsemi þar sem flestar bókunarþjónustur munu eftir breytinguna falla undir hugtakið smásali pakkaferða eða ferðasali dagsferða og þurfa að afla sér leyfis fyrir þeirri starfsemi. Afnumin er síðan krafa um skráningu á upplýsingamiðstöð.

Árið 2014 skilaði stýrihópur Ferðamálastofu skýrslu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustunni. Í skýrslunni var m.a. lagt til að lögfestar yrðu sérstakar öryggiskröfur sem gilda ættu um ferðaþjónustufyrirtæki sem skipuleggja og bjóða til sölu skipulagðar ferðir hér á landi. Í skýrslunni kemur fram að haghafar hafa bent á mikilvægi þess að öryggismál ferðaþjónustuaðila séu í lagi og þeir sem starfi í greininni hafi viðeigandi þekkingu og þjálfun. Um þetta hef ég oft átt samtöl við greinina.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sú skylda ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á skipulagðar ferðir að útbúa öryggisáætlun. Öryggisáætlun skal vera með ákveðnum hætti og innihalda m.a. viðbragðsáætlun, áhættumat og atvikaskýrslu. Ferðamálastofu er ætlað að hafa eftirlit með því að ferðaþjónustuaðilar geri öryggisáætlanir og uppfæri þær reglulega en ábyrgðin er fyrirtækjanna.

Í skýrslu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu er einnig lagt til að Ferðamálastofa fái auknar heimildir til að bregðast við brotum gegn lögum um skipan ferðamála. Samkvæmt núgildandi lögum hefur Ferðamálastofa ekki heimildir til að beita íþyngjandi úrræðum á stjórnsýslustigi, líkt og dagsektum eða stjórnvaldssektum en hér er lagt til að Ferðamálastofu verði veittar heimildir til að leggja á dagsektir. Með dagsektum verður Ferðamálastofu þannig kleift að þvinga aðila til að fara að ákvæðum laganna, t.d. varðandi leyfisskyldu, gerð öryggisáætlana og fleira.

Aðrar breytingar sem lögin fela í sér er flutningur ákvæða V. kafla núgildandi laga um skipan ferðamála, um tryggingarskyldu vegna alferða, yfir í lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og nokkrar breytingar eru gerðar til skýringa á skilyrðum leyfisveitinga.

Hæstv. forseti. Frumvarpinu sem ég hef hér mælt fyrir er ætlað að afmarka betur hlutverk Ferðamálastofu, auka við hlutverk stofnunarinnar hvað varðar rannsóknir í ferðaþjónustu og öryggismál ferðaþjónustunnar, ásamt því að aðlaga löggjöfina að breyttum veruleika vegna innleiðingar á tilskipun um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Eins og fram kemur í skýrslu um þolmörk ferðamennsku sem ég hef nýverið lagt fram þarf að gera umbætur á rannsóknarumhverfi ferðamála hér á landi og við því er brugðist í frumvarpinu með því að fela Ferðamálastofu að greina þörf fyrir rannsóknir sem m.a. nýtast við stefnumótun stjórnvalda í samvinnu við atvinnugreinina og rannsóknarstofnanir á sviði ferðaþjónustu.

Sömuleiðis hafa stjórnvöld brugðist við, t.d. í fyrra þegar ráðuneytið fékk ákveðið svigrúm í ferðamálunum þá hef ég lagt upp með það að forgangsraða þeim fjármunum að hluta í að efla rannsóknir í greininni sem er mjög mikilvægt.

Í frumvarpinu er jafnframt brugðist við skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu ferðamála frá október 2017 þar sem kom fram að endurskoða þyrfti lög um skipan ferðamála og marka skýrari stefnu í málaflokknum.

Auk þess sem ég hef þegar skýrt frá um afmörkun hlutverks Ferðamálastofu vil ég nefna að vinna við stefnumótun er nú yfirstandandi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu auk þess sem unnið er að verkefnum sem undirbyggja hana á vegum Stjórnstöðvar ferðamála.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til 2. umr. og til umfjöllunar hv. atvinnuveganefndar.