148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:08]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006, strandveiðar. Málið flytur atvinnuveganefnd. Ég ætla að fara aðeins yfir frumvarpið en það hljóðar svo:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. a skal ráðherra til 31. ágúst 2018 takmarka strandveiðar við 12 veiðidaga fyrir hvert skip, innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Fiskistofa getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðibáta fari umfram það magn, sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð nr. 607/2017 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2017/2018. Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa sem VS-afla, og telst sá afli ekki til hámarksafla skv. 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. a.

2. gr. hljóðar svo: Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til og með 31. ágúst 2018.

Greinargerðin við þetta frumvarp er svohljóðandi:

Frumvarp þetta er lagt fram af atvinnuveganefnd með stuðningi áheyrnarfulltrúa í nefndinni.

Strandveiðar hafa verið stundaðar frá því í júní 2009. Veiðarnar hafa gengið vel og reynst heilladrjúg nýbreytni innan stjórnkerfis fiskveiða. Frá árinu 2010 hafa að meðaltali 674 bátar stundað strandveiðar ár hvert. Í frumvarpi þessu er lagt til að útgerðum strandveiðibáta verði veitt heimild til að veiða í 12 daga í hverjum strandveiðimánuði.

Afli strandveiðibáta er í flestum tilfellum seldur á fiskmarkað. Á síðari árum hefur afli og aflameðferð verið til mikillar fyrirmyndar sem marka má af því að afli strandveiðibáta hefur komið í veg fyrir skort á ferskum fiski til útflutnings á þeim tíma sem þær eru stundaðar og minna er um úthald stærri skipa og báta vegna sumarleyfa. Fiskur strandveiðibáta hefur reynst góður og hefur því reynst verðmæt útflutningsvara. Þá hafa strandveiðarnar falið í sér möguleika til fiskveiða í atvinnuskyni án þess að greiða þurfi aflahlutdeildarhöfum gjald fyrir veiðiheimildir. Þannig hafa strandveiðar verið mikilvægur þáttur í því að koma til móts við sjónarmið þeirra sem telja að breytinga sé þörf á fiskveiðistjórnarkerfinu í þá veru að tryggja almenningi ríkari hlutdeild í veiðum.

Breytingin sem hér er lögð til felur einnig í sér aðgerð til að auka öryggi sjómanna á strandveiðibátum. Sá ágalli hefur verið á gildandi fyrirkomulagi að veiðarnar hafa verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilt er á sem skemmstum tíma og áður en aflaheimildin yrði upp urin. Þetta hefur leitt til þess að stundum hafa menn róið á minni bátum þótt ekki viðraði til þess og fylgir því að sjálfsögðu mikil slysahætta. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til ætti að draga mjög úr hvata til „ólympískrar“ sóknar og þar með slysahættu.

Gjald vegna strandveiða er hærra en aðrir útgerðarflokkar greiða. Veiðarnar eru skilgreindar sem sérveiðar og greiðir hver aðili því árlega fyrir veiðileyfi. Samhliða því gjaldi eru greiddar 50 þús. kr. sem úthlutað er til hafna landsins í réttu hlutfalli við landaðan afla.

Miðað við 15,7 tonna þorskafla, sem var meðalafli hvers báts á síðasta ári, eru þessi gjöld um fjórðungi hærri en hjá bátum með aflamark. Dæmið lítur þannig út, og svo er vísað í dæmi hér að neðan.

Auk fyrrnefndra gjalda bætast við fjölmörg önnur gjöld, t.d. veiðigjald, sambærileg við þau sem greidd eru vegna veiða annarra báta. Má þar nefna aflagjald, sölugjald fyrir afla, ísgjald, karaleigu, sorpgjald, löndunarkranagjald, umsýslugjald fiskmarkaða og skoðunargjöld báta, björgunarbáta og lyfjakistu, svo dæmi séu tekin og þykir mörgum nóg um.

Markmið frumvarpsins er að bæta umhverfi strandveiða og hverfa frá innbyggðum þætti þess sem skapar aukna áhættu til veiða. Horfið verði frá því að loka svæðum í hverjum mánuði þegar ætluðu veiðimagni er náð. Uppsafnaðri spennu eins og myndast í hverjum mánuði yrði eytt. Sem dæmi má nefna að í ágúst 2016 var aðeins heimilt að stunda veiðar í örfáa daga á hverju veiðisvæði, og er hér vísað í mynd og grafík þar að lútandi.

Frá árinu 2011 hefur þorskafli í strandveiðum ekki fylgt aukningu heildarafla. Alls vantar 9.247 tonn þar upp á, og er þar vísað í töflu þar að lútandi.

Með frumvarpinu er lagt til að í stað þessa fyrirkomulags sem verið hefur verði heimilt að stunda veiðar í 12 daga í hverjum mánuði. Áfram verði óheimilt að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga til róðra ásamt tilteknum „rauðum“ dögum eins og nú gildir um strandveiðar. Frumvarpið felur í sér breytingu hvað varðar val um daga og hvað varðar veiðar á ufsa.

Sú breyting sem felst í frumvarpinu á aðeins við um strandveiðitímabilið sem hefst 2. maí næstkomandi. Ekki þykir rétt að hafa 12 daga val ótímabundið þar sem óvissa er um hversu mikið strandveiðibátar veiða með þessu breytta fyrirkomulagi.

Með tilvísun í framangreint er breytingin sanngjörn, bæði hvað það varðar að strandveiðar hafa setið eftir í aflaaukningu frá árinu 2011 og tilkostnaði við veiðarnar. Þá er breytingunni einnig ætlað að gera veiðarnar eftirsóknarverðari og auka áhuga yngri kynslóðarinnar, karla og kvenna, á að stunda sjómennsku með því að hefja útgerð.

Breytingin er sérstaklega valin nú með tilliti til þess að óveruleg hætta er á að nýtingarstefna í þorski, sem stjórnvöld hafa sett og framfylgt er með aflareglu, gangi ekki eftir.

Þannig hljóðar þetta frumvarp. Við höfum fengið inn til atvinnuveganefndar margar umsagnir og margar góðar ábendingar. Sýnist sitt hverjum eins og gengur. Landsamband smábátaeigenda hefur mælt með þessu frumvarpi og hafa mörg félög lýst mikilli ánægju með það. Önnur félög hafa vissulega lýst því yfir að þau óttist að ekki verði tryggður nægur afli til að halda út allt sumarið, að aflinn sem ætlaður er til strandveiða dugi ekki í 12 daga í ágúst fyrir alla báta. Ég skil vel það sjónarmið. En hjá þeim félögum sem hafa haft miklar áhyggjur af því kemur líka fram að menn eru sáttir við ef tryggt yrði í sumar í þeirri tilraun sem gerð verður, að allir bátar fái 12 daga þessa fjóra mánuði. Þá munu menn styðja þessa tilraun. Mér finnst mikilvægt að það komi fram og vinnan fram undan er þá sú að sjá til þess að við tryggjum afla til að mæta þessum 12 dögum fyrir alla báta. Ég vísa til svars sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá því fyrr í vetur við spurningu frá hv. varaþingmanni Bjarna Jónssyni þar sem hann spurði hve mikið magn þyrfti til strandveiða til þess að mæta 16 dögum í mánuði. Miðað við það svar sem kom þar hefði þurft fyrir 12 daga í mánuði, miðað við fjölda báta síðasta sumar, 10.270 tonn.

Nú göngum við út frá því að hafa að lágmarki 11.200 tonn í þessum sameiginlega potti svo það ætti nú að vera borð fyrir báru. En ég legg mikla áherslu á að strandveiðar verði stundaðar áfram. Þetta er tíunda sumarið sem strandveiðar verða stundaðar og komin er góð reynsla á þær. Það hefur sýnt sig að strandveiðar hafa átt mikinn þátt í að styrkja stöðu hinna minni sjávarbyggða, skapa atvinnu og gott hráefni á þeim tíma sem ekki er til hráefni, jafnvel á fiskmörkuðum, fyrir vinnslur í landi. Fiskvinnslurnar hafa verið mjög ánægðar með að fá strandveiðiaflann þegar kvótabátar hafa verið búnir með sinn kvóta. Nú er kominn tími til að horfa til reynslunnar og skoða hvað betur megi fara. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við alþingismenn og stjórnvöld höfum kjark til að gera þessa tilraun í sumar og tryggja öllum 12 daga í hverjum mánuði sama hvar er á landinu og taka svo stöðuna í haust og kanna hvernig við viljum sjá öruggt, sveigjanlegt og gott strandveiðifyrirkomulag til framtíðar. Ég efast ekki um að það er vilji til þess hér, alveg burt séð frá flokkapólitík, að þessi grein fái að þróast og dafna. Hún er kjarninn í þessum litlu sjávarbyggðum og þarf að stunda meðfram öðru.

Auðvitað eru sjónarmið uppi um að gefa strandveiðar alveg frjálsar. Ég myndi persónulega algerlega styðja það ef hægt væri að ná samkomulagi um það á þingi. En við tökum skrefin eitt og eitt og náum samstöðu, eins og varðandi þetta mál núna, þverpólitískt, til að gera þessa tilraun, horfum til þeirra umsagna sem koma um málið og styrkjum það enn frekar. En við þurfum að bregðast hratt við ef við ætlum að ná að gera þessa tilraun í sumar. Það minnkar í stundaglasinu. Strandveiðarnar hefjast 2. maí. Það er ekki langur tími til stefnu.

Ég hvet þingheim til að standa með þessari góðu tilraun. Þessu frumvarpi fylgir mikill velvilji gagnvart strandveiðum. Öryggismálin eru það sem rekið hefur mig áfram í að tala fyrir þessu, að tryggja mönnum sveigjanleika og fasta daga í hverjum mánuði. Við getum ekki horft upp á að menn séu í ólympískum veiðum til að reyna að ná því markmiði á fyrstu dögum hvers mánaðar sem eru til skiptanna. Auðvitað eru mismunandi bátar og stærðarflokkar á strandveiðum. Minni bátarnir eru ekki samkeppnishæfir við þá stærri og öflugri sem fara á strandveiðar eftir að þeir hafa klárað aflamark sitt í apríl. Við þurfum að horfa til þess.

Strandveiðarnar voru í upphafi hugsaðar til þess að efla smábátaútgerð í landinu, nýliðun, og halda þeirri grein við. Rætur okkar sem fiskveiðiþjóðar eru í þessari grein. Þá skiptir ekki máli í mínum huga þó að þar séu einhverjir læknar og lögfræðingar í bland. Ég held að það hafi allir gott af því að kynnast lífinu í sjávarþorpunum og fara á sjóinn. Það er bara mannbætandi. Ekki gefst öllum kostur á að máta sig við sjómannsstörfin í dag en þetta er ein leið til þess að gera það.

En öryggismálin skipta gífurlegu máli, sveigjanleikinn, að geta haft möguleika á að velja góðviðrisdaga til að fara lengra út og sækja betra og verðmeira hráefni.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál lengra í 1. umr. Við eigum eftir að fjalla um þetta í atvinnuveganefnd og þurfum að hafa hraðann á ef okkur á að takast að klára þetta tímanlega. Við förum vel yfir allar umsagnir og vinnum þetta mál saman sem heild í atvinnuveganefnd.