148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég skil alveg þessar vangaveltur. En ég hef þó ekki áhyggjur af því að litlu sjávarplássin, hvar sem er á landinu, fyrir norðan eða austan, vestan eða sunnan, muni fara halloka út úr þessu miðað við hvernig kerfið hefur verið. Til er tafla yfir fjölda róðra í hverjum mánuði, magn og annað, frá upphafi, sem við þurfum að kynna við 2. umr. og munum fjalla um í atvinnuveganefnd. Veruleikinn er sá að þó að fleiri dagar hafi verið í mánuði í einhverjum landshlutum eða í þessum svæðisbundnu hólfum þýðir það ekki endilega að menn hafi náð fullfermi í hverjum róðri, þeim 770 óslægðu kílóum sem má veiða, heldur hafa menn róið með tilheyrandi kostnaði og náð litlu, farið margar veiðiferðir en ekki endilega náð verðmæti eftir því.

Með þessu fyrirkomulagi hér sitja allir við sama borð, hafa 12 daga, velja bestu dagana, hafa meiri möguleika á að ná fullfermi og fá hærra verð. Ég óttast því ekki að bátar víðs vegar um landið sitji eftir; þó að þeir hafi haft möguleika á að róa fleiri daga innan mánaðar hefur það ekki endilega skilað sér í meiri verðmætum.

Þeir sem eru heimilisfastir á viðkomandi stað — það verður að skrá sig þar sem maður er heimilisfastur — færu ekki að fara landshluta á milli með tilheyrandi kostnaði, þeir þyrftu m.a. útvega sér húsnæði með miklum kostnaði. Þeir myndu sjá hag sinn í að róa áfram frá sinni heimabyggð. Í þessu kerfi hafa alltaf verið um 50 bátar sem flakka í kringum landið. Það breytist ekki neitt. En menn munu sjá hag sinn í því (Forseti hringir.) að róa frá sinni heimabyggð og hafa 12 daga í mánuði til þess.