148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir flutning á þessu frumvarpi. Ég er í atvinnuveganefnd og þar með á frumvarpinu. Ég gerði það að stærstum hluta vegna þess að við erum að taka skref í átt til meira öryggis eins og fram kom í framsögunni og líka það að þetta er tilraun til eins árs eða bara sumarsins fram undan með það að markmiði að endurskoða þetta í haust.

Strandveiðar eru núna að fara inn í tíunda árið. Þegar þær voru settar á á sínum tíma var ég mjög skeptískur á þær en þær eru búnar að sanna sig sem kerfi sem er eins og ég hef stundum sagt gluggi fyrir þessa ungu til að koma inn og þá gömlu til að fara út og allt þar á milli. Innan strandveiðiflotans eru menn af öllum gerðum, lögfræðingar, kennarar og ég veit ekki hvað, þannig að þetta hefur gengið mjög vel og það er þjóðarsátt um þetta kerfi.

Ég man þá tíð með önnur skakkerfi eða dagakerfi að þau sigldu inn í kvóta, a.m.k. þrjú þeirra. Það er það sem menn þurfa að passa sig á, að þetta kerfi fái að vera í friði sem strandveiðikerfi. Ég held að við séum öll sammála um það.

Mig langar aðeins að drepa á nokkur atriði. Þarna er talað um að ufsa megi landa sem VS-afla að einhverjum hluta. Nú er ufsinn svo vannýttur að ég myndi telja allt í lagi að 10% af ufsa færu beint til útgerðar, það kæmi ekki illa við (Forseti hringir.) nokkurn mann. Aðrar spurningar ætla ég að koma með í síðara andsvari.