148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða eins og hér hefur komið fram, tillögu frá atvinnuveganefnd um strandveiðar. Þetta er annað árið sem við förum af stað með þessa tilraun, ég og hæstv. formaður atvinnuveganefndar Lilja Rafney Magnúsdóttur fórum af stað með svona tilraun fyrir ári síðan sem því miður gekk ekki eftir. Það er eins og málin vindi upp á sig þegar er farið af stað. Við höfum fyrst og fremst í þessu máli haft að leiðarljósi öryggisatriði sjómanna. Það hafa orðið ömurleg slys við þessar veiðar. Við viljum koma í veg fyrir að þau gerist aftur.

Þess vegna var þessi leið fundin, sem á að vera ágætisleið, að tryggja strandveiðibátum og sjómönnum 12 daga í mánuði þá fjóra mánuði sem veiðar standa yfir. Það var það sem við lögðum af stað með. Ég held að það sé mikilvægt og það hefur komið fram hjá formanni nefndarinnar og greinilega er mikill vilji hér í þingsalnum fyrir því að það verði tryggt. Við höfum líka fengið fjölmargar umsagnir, frá Landssambandi smábátaeigenda, félögum smábátaeigenda víða um landið, einstaklingum og fleiri aðilum, þar sem koma fram miklar áhyggjur og efasemdir. Auðvitað er ýmislegt í þessu eins og gerist og gengur, eðlilega.

Við í atvinnuveganefnd munum fara mjög vel yfir þessi mál. Við viljum vanda okkur við þetta verkefni. Við ætlum að hafa að leiðarljósi að bæta öryggi sjómanna. Það er leiðarljósið í þessu máli. Allt annað sem hefur komið fram í umræðunni, varðandi meðaflann og það, eru líka ágætismál sem við þurfum að ræða og munum örugglega halda áfram að ræða því að þetta er tilraun sem gerð er eingöngu fyrir sumarið í sumar. Ég held að við öll verðum að leggja töluvert á okkur og töluvert af mörkum til að þessi tilraun heppnist vel. Ég held að það sé aðalatriðið.

Það er líka alveg ljóst að það verða ekki alveg allir ánægðir með hvernig þetta lítur út. Það eru ekki allir ánægðir með 12 daga. Ekki eru allir ánægðir með að fá ekki að veiða um helgar. Við höfum öll okkar skoðanir á því. Við þurfum að fara líka yfir það. Hugmyndin í upphafi er sú að reyna að koma þessum öryggissjónarmiðum fram án þess að vera að kollvarpa öllum hlutum sem snúa að þessu kerfi. Það er mjög viðkvæmt að vera að hræra í þessu og breyta. Við viljum komast hjá því. Við viljum taka eitt skref í einu til þess að auka öryggi sjómanna við strandveiðar. Það hefur komið fram hérna.

Við sem þekkjum vel til við sjávarsíðuna vitum að afli smábáta og gæði hans hafa aukist verulega á umliðnum árum. Það er alveg frábært. Og það er auðvitað frábært þegar þessir dugmiklu sjómenn koma að landi akkúrat á þeim tíma þegar vantar afla til vinnslu, til útflutnings á ferskum fiskafurðum frá Íslandi að þá hefur þetta kerfi virkilega komið sterkt inn. Við viljum halda áfram að setja sterkari stoðir undir kerfið, auka öryggið, tryggja að í öllum landshlutum verði 12 dagar í hverjum mánuði. Það er verkefni nefndarinnar að ljúka því sem fyrst.

Eins og kom fram í máli hæstv. formanns nefndarinnar höfum við skamman tíma til stefnu. Veiðarnar byrja 2. maí. Þá ætlum við að vera búin að fá botn í þetta mál. Við erum að tala um 12 bestu dagana fyrir besta fiskinn í sjónum og fyrir markaðinn. Meðaflann þurfum við að ræða líka. Ég tek þær ábendingar sem hér hafa komið fram mjög alvarlega. Við höfum líka rætt það áður í nefndinni undir þessum lið þegar við erum að tala um smábátakerfið að það er orðið stórt og hefur stækkað mjög mikið á undanförnum árum. Við höfum gert vel við þá, þeir eru líka að standa sig. Við skulum halda áfram á þeirri braut sem við erum, halda áfram að tryggja öryggi sjómanna á sjó.