148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:50]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni atvinnuveganefndar Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir framsöguna og þessar áhugaverðu umræður sem hafa þegar átt sér stað. Ég fagna því að heyra að nefndarmenn vilji vanda til vinnunnar í framhaldinu í nefndinni vegna þess að mér fannst ekki vel að þessu staðið í upphafi. Frumvarpið kom inn í nefndina fimm mínútum fyrir fund og var afgreitt út úr nefnd á sama fundi nánast án umræðna. Ég rétt náði að bóka mótmæli sem nýgræðingur á þingi sem var ekki alveg viss um hvernig ég átti að haga mér. Um leið og ég sá hvernig í pottinn var búið gat ég ekki sætt mig við þetta frumvarp.

Tilgangurinn með frumvarpinu er þríþættur samkvæmt greinargerð. Í fyrsta lagi á að auka veiðiheimildir smábátasjómanna með því að tryggja hverjum strandveiðibát 12 veiðidaga í hverjum mánuði sem veitt er, þ.e. frá maí til ágústloka. Númer tvö: Frumvarpið á að tryggja frekar öryggi sjómanna, þ.e. við ætlum að koma í veg fyrir kapphlaup í sjósókn í byrjun hvers mánaðar í þeim tilgangi að ná sem mestum afla áður en úthlutað aflamagn veiðist upp úr sjó. Og númer þrjú: Frumvarpið á að gera strandveiðar eftirsóknarverðar og auka nýliðun, sér í lagi meðal yngra fólks.

Þetta eru göfug markmið. Ég geri mér grein fyrir að ásetningurinn er góður. En þetta frumvarp uppfyllir ekkert af þessu. Ég verð að mótmæla því óbreyttu og er ekki ein um það miðað við athugasemdir sem hafa borist. Það er áfram gert ráð fyrir heildaraflamagni sem ráðherra ráðstafar til strandveiða. Í frumvarpinu er afdráttarlaust ákvæði um að Fiskistofa geti stöðvað strandveiðarnar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðibáta fari umfram hámarksmagn.

Hámarksmagn ákvarðar ráðherra í reglugerð og útfærir strandveiðarnar sjálfar jafnvel enn frekar með annarri reglugerð. Þetta þýðir með öðrum orðum að það eru engir 12 dagar tryggir fyrir neinn bát í neinum mánuði. Það er alls ekki víst að allir sjómenn geti nýtt sína 12 daga í hverjum mánuði. Þetta er háð reglugerð. Þetta er háð aflamarki sem er sett ofan á þetta málamynda sóknarmark.

Með áframhaldandi úthlutun hámarkskvóta fyrir strandveiðar getum við ekki tryggt auknar veiðiheimildir með þessu frumvarpi. Það er algerlega upp á náð og miskunn reglugerðarvalds ráðherra. Þannig eru hvorki auknar veiðiheimildir tryggðar né 12 daga veiðar í hverjum mánuði í þessu frumvarpi. Og þetta er ekki í þágu sjómanna.

En þetta versnar enn meira því þetta vindur allt upp á sig. Á sama máta er komið í veg fyrir aukið öryggi við strandveiðar. Þessar stífu aflatakmarkanir valda því að kapphlaupið til að tryggja sér hámarkshlutdeild í afla heldur áfram. Hættan á því að smábátar hætti sér út á miðin í nánast hvaða veðri sem er til að missa ekki af veiðum er alls ekki úr sögunni. Þvert á móti. Sjómenn á svæðum B, C og D sem veiða meira síðsumars en sjómenn á svæði A verða í meiri hættu en áður, einfaldlega til að fá einhverja aflahlutdeild áður en kvótinn klárast.

Ég mótmæli því efni þessa frumvarps. Við verðum að breyta því. Það er ekkert því til fyrirstöðu að taka þessar aflatakmarkanir út og taka út heimild Fiskistofu til að stöðva veiðarnar. Leyfum hverjum báti að eiga 12 örugga veiðidaga í hverjum mánuði. Gerum þá tilraun í sumar og metum svo árangurinn í haust. Veiðigeta strandveiðiflotans er ekki slík að þorskstofninn við Íslandsstrendur hrynji við þá tilraun. Enda er strandveiðum ofstjórnað hvort eð er. Það er heildaraflastýring. Nú er komin sóknarstýring ofan á hana. Það eru reglur um hvaða daga megi róa, reglur um hversu langur róðurinn má vera, reglur um hámarksafla í hverjum róðri. Það vantar bara reglur um hvernig báturinn má vera á litinn. (Gripið fram í: Er það ekki?) Blár.

Þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra var spurður um áhrif þess að leyfa strandveiðibátum að veiða fjóra daga í viku í fjóra mánuði var svarið skýrt: Heildarafli hefði orðið um 13.700 tonn ef við miðum við að fjöldi báta hefði verið sá sami og 2017. Fjórum dögum í hverri viku má líkja saman við 16 daga í mánuði. Hér erum við að tala um einungis 12 daga í mánuði. Miðað við svör hæstv. sjávarútvegsráðherra yrði þetta svona 10.500 tonn. Ef við bætum við afla úr línuívilnun og úthlutum honum til strandveiða erum við komin með grundvöll fyrir 12 daga kerfi, sóknarmarki án aflahámarks, án stöðvunar veiða af hálfu Fiskistofu, í tilraunaskyni í sumar.

Við vitum öll að töluverður hluti línuívilnunar, alveg eins og ufsakvótans, hefur bara ekkert verið nýttur undanfarin ár. Þetta ætti því ekki að koma að sök. Sjómenn á öllum svæðum yrðu sáttir, ekki bara sjómenn á svæði A. Þá getum við talað um aukið frelsi og aukið magn afla í strandveiðum. Þá getum við talað um öryggi sjómanna. Þá getum við talað um nýliðun. En með óbreyttu frumvarpi getum við það ekki.