148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[20:59]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir þetta andsvar. Áður en frumvarpið kom inn í nefndina var það kynnt sem hreint 12 daga sóknarmark, 12 dagar í hverjum mánuði á hvern bát. Ég er ekki sú eina sem hef bent á annmarka á frumvarpinu, athugasemdir hafa komið héðan og þaðan. Það er ekki bara Norðurfjörður, það er líka Bakkafjörður og það er í raun og veru bara svæði A sem er ánægt með þetta. Þar hefjast veiðar fyrst en þeir myndu samt vilja byrja í apríl. Loforð um aukið aflamagn er enn bara í orði en þessi 12 daga regla með aflahámarki verður til þess að á svæði A eiga þeir eftir að moka upp gríðarlegum hluta af þessari aflahlutdeild ef allir á svæði A fá 12 daga í maí og júní. Þar hafa verið fæstir dagarnir, flestir bátarnir og mesta veiðin. Það verður mjög lítið eftir í júlí og ágúst.

Sjómennirnir á svæði B að einhverju leyti en aðallega C og D myndu vilja veiða fram í september. Þeir byrja ekkert almennilega að veiða fyrr en seinna á vorin. Það er þetta sem verður að laga. Þess vegna er þetta (Forseti hringir.) aflamark ofan á sóknarmark er ósanngjarnt.