148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[21:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Eymarsdóttur fyrir hennar innblásnu ræðu og margt merkilegt sem þingmaðurinn talaði um. Ég verð nú að segja að það þykir býsna gott á lítilli trillu að ná 12 dögum í mánuði. Ég á ekki von á því að allir bátar á svæði A rói 12 daga í maí, júní, júlí, hvern mánuð. En það getur vel verið að það verði.

Það eru vísir menn eins og hjá Landssambandi smábátaeigenda búnir að leggjast yfir þessar tölur og fullyrða nánast að þessi pottur sem er í boði muni duga til að veiðar séu út ágúst. Ég er á því að gera þessa tilraun.

Talandi um öryggi sjómanna er ég ekki alveg þar, hafandi verið sjómaður í 30 ár. Ábyrgð skipstjórans er alltaf númer eitt. Að kenna einhverju kerfi um slys úti á sjó finnst mér ekki alveg rökrétt. Það er alltaf á ábyrgð skipstjórans sem tekur ákvörðun um sjóferðina.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni um þetta ákvæði að Fiskistofa geti stöðvað veiðar ef stefnir í að aflanum verði náð, ég set svolítið spurningarmerki við það. Við munum ræða það í nefndinni. En mér finnst að það sé rétt að gera þessa tilraun.