148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú bara af hreinskilni að segja að ég hef ekki velt því svo mjög fyrir mér hvort þetta sé nógu skýrt í lögum þegar kemur að því ábyrgðarhlutverki sem þingmaðurinn er að tala um. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum yfir það. Ég held hins vegar að verkefnið verði alltaf samstarfsverkefni atvinnulífsins og ríkisins. Eitt dæmið eru allar þær — allar, þær er svo sem ekkert of margar, sendiskrifstofur sem Ísland er með víða um heim sem gegna ákveðnu hlutverki þegar kemur að markaðssetningu Íslands, liðka fyrir fyrirtækjum og samningum o.s.frv. Auðvitað er hægt að nálgast það með öðrum hætti en hér er lagt upp með. Ég held hins vegar að þetta sé farvegur sem hugnast atvinnulífinu ágætlega, eins og ég hef skilið alla vega, að þessi sameiginlega ábyrgð sé til staðar þó svo að atvinnulífið miðað við þetta frumvarp, það má kannski orða það þannig, beri meiri ábyrgð en ríkið sé horft til stjórnarsamsetningarinnar þar sem eru þrír á móti tveimur.

Það er hins vegar rétt að fjármunir eru töluvert miklir sem koma frá atvinnulífinu inn í þennan pakka allan saman. Þeir koma reyndar ekki bara í gegnum markaðsgjaldið í rauninni, því auðvitað er ef svo má segja, þetta er kannski langsótt, ákveðinn hluti sem kemur frá ráðuneytunum sem kemur fyrst frá atvinnulífinu. En mín hugsun er sú í þessu að við þurfum að stórauka fjármuni til Íslandsstofu í þessa markaðssókn til lengri tíma. Ef við ætlum að geta horft fram á við, ef við ætlum að ná takmarkinu sem þarna er lagt upp með, að tvöfalda eða þrefalda útflutningsverðmætið 2030, eitthvað slíkt, þá þurfum við að spýta mjög vel í til þess að ná því.

Er þetta nógu skýrt? Er ábyrgðin nógu skýr? Ég þori ekki alveg að svara því núna.