148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Í 2. gr. þessa ágæta frumvarps segir, og ég gerði það reyndar að umræðuefni hér áðan, með leyfi forseta:

„Ráðið skal taka til umfjöllunar tillögur að verkefnum sem unnin eru í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda og tryggja að slík verkefni falli að markaðri langtímastefnu.“

Það má líta svo á að þetta sé leið fyrir aðila að koma tillögu þarna inn.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að það þarf vitanlega að tryggja fjármuni. Það er það sem ég hef kannski verið að segja hérna, það eru allt of litlir fjármunir í þessu púkki öllu saman.

Ég tók hér upp með mér í andsvarið tillögu til þingsályktunar um stefnumótun í byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024. Það er áhugavert fyrir okkur að fara í gegnum það plagg í ljósi umræðunnar hér og orða hv. þingmanns; að fara í gegnum þessa áætlun og velta því fyrir okkur hvort ekki sé mikilvægt að taka á þessum áhyggjum þingmannsins í stefnumótun um byggðaáætlun og tryggja þar hver sé framkvæmdaraðili að fjármögnun og eftirfylgni og að markmið um markaðsskrifstofuna nái fram að ganga.