148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[22:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að fá tækifæri til að ræða þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um Íslandsstofu, með síðari breytingum. Það er ákveðin grundvallarbreyting sem felst í frumvarpinu. Það er verið að breyta ríkisstofnun í sjálfseignarstofnun. Ekki eru allir rosalega hrifnir af því að maður sé með einhverja kerskni hér í ræðustól miðað við þau orð sem hafa fallið af hálfu forsætisráðherra í gær en ég verð þó að segja að ég vil óska hæstv. utanríkisráðherra til hamingju með þessa fyrstu tilraun til einkavæðingar á vakt Vinstri grænna í forsætisráðherrastóli.

Síðan er það okkar hér í þinginu, m.a. í utanríkismálanefnd, að skoða hvað í þessu felst. Erum við í fyrsta lagi að ná því sem við viljum ná, aukinni markaðssetningu íslenskra afurða, útflutningsvara okkar, hverju nafni sem þær nefnast, hvort sem er í formi vöru, þjónustu, menningar, lista o.s.frv.? Erum við að ná því markmiði fram með þessu frumvarpi? Erum við, í öðru lagi, að láta allar hendur á dekk til að við gerum þetta af sem mestum krafti? Síðast en ekki síst: Erum við þá líka að uppfylla það sem við þurfum að fara í gegnum, að þetta sé gegnsætt og að notkun á fjármunum sem fara í gegnum ríkissjóð sé ábyrg.

Í andsvari við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson nefndi ég að þetta virðist algerlega fjármagnað, að mér sýnist, miðað við það sem segir í frumvarpinu, af hálfu atvinnulífsins. Ekkert á að falla inn í verkefnið af hálfu ríkisins, sýnist mér, nema ráðherra leiðrétti það síðar. Ég velti því þá fyrir mér af hverju við erum að fara þessa leið í átt að sjálfseignarstofnun. Ég vil skilja það þannig að atvinnulífið leggi mikla áherslu á að fá hið opinbera með sér í þennan leiðangur. Ég held að það sé vel. En gegnsæið, er það þá nægilega mikið til staðar? Af hverju þá ekki að hafa þetta einkaréttarlegt fyrirtæki, hafa þetta algerlega á forsendum atvinnulífsins, að það sjái einfaldlega um þessar leiðir sjálft og kalli til hið opinbera eftir þörfum? Við höfum brennt okkur á því í gegnum tíðina að þegar þessi mál eru ekki nægilega skilgreind í bókhaldi ríkisins, eftirlitshlutverk opinberra stofnana, hafa til dæmis umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun komið með mjög skýrar ábendingar. Það er vitnað í það í þessu. Annaðhvort er farið fram á að hlutverk stofnunarinnar, Íslandsstofu, verði alveg skýrt sem opinberrar stofnunar eða þá sem einkaréttarstofnunar. Hér er farin leið sjálfseignarstofnunar.

Þetta eru einfaldlega vangaveltur af minni hálfu sem ég vil setja fram í þessu samhengi. Við verðum að vanda til verka. Við munum fara mjög gaumgæfilega yfir þessa þætti í utanríkismálanefnd.

Ég vil ekki sjá þetta sem stofnun þar sem er verið að reyna að losa þetta undan ríkinu eingöngu til þess að búa til silkihúfustofnun fyrir utanríkisráðherra eða atvinnulífið. Ég vil sjá þetta alvörustofnun, hvort sem hún er opinber eða sjálfseignarstofnun, sem raunverulega samhæfir það sem kemur fram í inngangi greinargerðarinnar, að skoða heildstætt fyrirkomulag markaðssetningar á Íslandi og íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Mér finnst skorta svolítið á þetta raunverulega samtal. Við viðurkennum öll sem höfum verið í ráðuneytum að það er alltaf togstreita á milli þeirra. Það segir til dæmis hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem hefur mikla reynslu úr ráðuneytum. Það er ekki verið að koma í veg fyrir það með þessu. Mér finnst það svolítið miður. Ég er hrædd um að flestir fletir í þessu hafi ekki verið klukkaðir. Það munu enn verða verkefni innan fagráðuneytanna, sem betur fer, sem verða á þeirra forræði. En er búið að samþætta þau nægilega mikið inn í þetta þannig að við séum að nýta alla krafta svo að markaðssetningin verði sem best í þágu Íslands? Það er hlutur sem við þurfum að fara yfir með atvinnuvegaráðuneyti, kalla það til okkar og spyrja að því.

Ég man líka á síðasta ári, þegar þetta mál kom upp, að mikil andstaða var innan fjármálaráðuneytisins og að hluta til innan atvinnuvegaráðuneytisins á fimmtu hæðinni. Ekki á sjöttu, í sjávarútvegsráðuneytinu þar sem undirrituð sat, heldur á fimmtu. Þetta er hlutur sem við þurfum aðeins að fletta upp í ráðuneytunum með. Af hverju er þessi andstaða? Af hverju var þetta í raun stoppað af hálfu fjármálaráðuneytisins? Er búið að taka tillit til þeirra athugasemda sem komu þar fram?

Um leið og við segjum að við viljum gera þetta vel þýðir það ekki að stoppa eigi málið en við komum þá með þær breytingar sem verða til að styðja miklu frekar tilgang þessa frumvarps.

Ég held til að mynda að það þurfi að útskýra mjög vel hvað útflutnings- og markaðsráðið þýðir. Það er verið að vísa til Vísinda- og tækniráðs í því samhengi. Vísinda- og tækniráð, og þeir fjármunir sem þar eru undir, er að stærstum hluta fjármagnað af ríkinu. Það eru svolítið mismunandi aðstæður. En það er verið að reyna þar. Vísinda- og tækniráð hefur gefist mjög vel. Eitt af því besta, finnst mér, sem hefur verið að gerast frá 2000 eða 2001, þegar lögin um Vísinda- og tækniráð voru samþykkt, er hvernig þau hafa þróast; stöðnuðu aðeins um tíma en síðan hafa skref verið stigin fram á við af því að allir sitja við borðið. Ég trúi því að það sé tilgangur þessa frumvarps að fá allar raddir að borðinu. Það þýðir um leið að fagráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneytið, atvinnuvegaráðuneytið, hugsanlega umhverfisráðuneytið líka, séu þá undirseld með sína markaðssetningu alla gagnvart ráðinu. Verður útflutnings- og markaðsráðið yfirráð, yfirskjöldur, fyrir fagráðuneyti sem þeim ber skylda til að leita til? Þá væri forvitnilegt að fá að heyra hvernig ráðherra sjálfur sér þetta. Við hljótum að gera allt til að þessi nálgun verði sem heildstæðust og að við reynum að nýta kraftana sem felast í því að atvinnulífið vill koma jafn markvisst að þessu og raun ber vitni og það hefur metnað til.

Ég velti líka fyrir mér ákveðnum málum sem hafa komið upp í gegnum tíðina varðandi stór og mikilvæg vörumerki sem Ísland á. Hver er það fyrir Íslands hönd sem mun taka til varnar fyrir okkur? Eigum við að nefna skyrið? Við misstum það út úr höndunum því að enginn taldi að skyrið yrði vinsælt. Síðan eru það erlend fyrirtæki í dag, Arla og fleiri, og líka Siggi´s skyr úti í Bandaríkjunum, sem hafa náð að tileinka sér það vörumerki sem ég rek beint til Íslands. Við misstum það úr höndunum. Nú stöndum við til dæmis frammi fyrir Icelandic. Hvernig er sú sýn, hver á að móta hana, hver á að tryggja sér þau vörumerki fyrir Íslands hönd? Mun ráðið móta ákveðna stefnu, ákveðna sýn, í þá veru? Það eru gríðarlegir hagsmunir sem hér eru undir. Það mætti telja til fleiri vörumerki sem skipta okkur sem Íslendinga mjög miklu máli.

Þetta er eitt og annað. Ég stikla á hinu og þessu, fer fram og til baka, ég viðurkenni það fúslega, herra forseti. En ég held að það verði áhugavert að fara yfir þetta með þeim aðilum sem hafa komið að því að semja þetta frumvarp um leið og ég sé fram á að við munum kalla til eftirlitsstofnanir ríkisins og fá ákveðna leiðsögn hjá þeim um það hvernig best er að gera þetta; fá þau frekar í lið með okkur til að leiðbeina okkur í þá veru að frá Alþingi komi sterkasta frumvarpið sem við getum útbúið til að styðja við atvinnulífið, markaðssetningu o.fl.

Það væri líka áhugavert að vita, af því að ég gat um það áðan, að þetta er fyrsta tilraun til einkavæðingar á vakt Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, hvort samhljómur sé í ríkisstjórninni um þetta mál og hvort athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu Vinstri grænna, hvort fyrirvarar séu um þetta mál af hálfu þeirra varðandi þetta mál sem, ef vel verður að staðið, getur orðið gríðarlega mikilvægt batterí fyrir okkur. Ég vil forða því að þetta verði einhver silkihúfustofnun, ég vil miklu frekar sjá felast í þessu ákveðna dýnamík. Dýnamíkin kemur oftar en ekki í gegnum atvinnulífið frekar en hið opinbera.