148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

barátta gegn fátækt.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að sá dagur muni seint renna upp að við getum sagt hér á þinginu að verkinu sé lokið. Við á Alþingi tökumst oft á um það hvernig við getum best skapað þau skilyrði að ríkissjóður sé í færum til þess að styðja við þá sem höllum fæti standa í samfélaginu, þá sem ekki hafa náð að leggja til hliðar fyrir eftirlaunaárin, þá sem búa við örorku, þá sem af einhverjum ástæðum rata í þær félagslegu aðstæður að þeir þurfa aðstoð og hjálp, þá sem eru sjúkir. Ég hef ávallt lagt á það áherslu að það sé langfarsælast til þess að ríkið geti risið undir þessari ábyrgð sinni, til þess að við getum sinnt þessum mikilvægu verkefnum af myndarbrag, að leggja áherslu á verðmætasköpun í landinu. Það hefur skilað okkur getu í gegnum tíðina til þess að gera betur.

Ef við horfum núna nokkur ár aftur í tímann sjáum við að slíkar áherslur skila sér beint til allra landsmanna. Þess vegna höfum við getað aukið framlög til almannatryggingakerfisins um tugi milljarða á undanförnum örfáum árum. Þess vegna höfum við getað stutt betur við þá sem hv. þingmaður er helst að berjast fyrir, vegna þess að hér hafa orðið til aukin verðmæti. Við erum að skapa meiri verðmæti úr sjó. Við höfum dregið fleiri fiska og verðmætari úr sjó á undanförnum árum. En á sama tíma erum við að verða uppseld með orkuna okkar, fleiri vilja koma hingað og stunda iðnað. Svo hefur ferðamönnum fjölgað ár frá ári. Með almennum heilbrigðum samkeppnisskilyrðum á Íslandi heldur verðmætasköpunin áfram og í réttu (Forseti hringir.) hlutfalli vex geta okkar til þess að styðja við þá sem hv. þingmaður talar fyrir.