148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

barátta gegn fátækt.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já. Staðreyndin er sú að ef tölurnar eru skoðaðar af einhverri sanngirni hefur okkur orðið verulega ágengt á þeim sviðum sem hér skipta mestu máli. Réttindabætur til lífeyrisþega sem eiga rætur sínar að rekja til lagabreytinga á Alþingi haustið 2016 eru eitt dæmið. Áform um réttindabreytingar og -bætur til öryrkja, sem eru fjármagnaðar í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, eru annað dæmið. Lítið atvinnuleysi er þriðja dæmið. Lágir raunvextir, lægstu vextir á húsnæðislánum sem sést hafa, eru enn eitt dæmið. (Gripið fram í.)

Svona gætum við haldið áfram að tína upp dæmin um hvernig okkur hefur tekist vel til, enda komum við vel út þegar lífskjör á Íslandi eru sett í alþjóðlegan samanburð. (Gripið fram í.) Ég fór til Frakklands á síðasta ári til að taka við viðurkenningu fyrir að Ísland, á lífskjaramælikvarðann sem þar var verið að kynna (Forseti hringir.) til sögunnar, endaði í fyrsta sæti.