148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

innflutningskvótar á ostum.

[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við munum öll umræðuna um búvörusamningana, það stóð ákveðinn styr um þá og sitt sýndist hverjum. Það verður þó að segja eins og er að þáverandi formaður nefndarinnar, hv. þm. Jón Gunnarsson, beitti sér fyrir ákveðnum tilslökunum á tilteknum sviðum, m.a. um innflutning á tollfrjálsum ostum. Nú hefur atvinnuvegaráðuneytið auglýst eftir umsóknum um nýja tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir landbúnaðarafurðir en í auglýsingu ráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir að allur tollkvótinn fyrir svokallaða sérosta, þessa góðosta sem við þekkjum, Parmesan og Rochefort, sem njóta upprunaverndar, hafi strax verið auglýstur allur á fyrsta ári gildistíma samningsins. Þetta er þvert gegn mjög skýrum vilja Alþingis sem sagði að strax á fyrsta ári gildistíma samningsins ætti að koma inn allur stabbinn.

Í auglýsingu ráðuneytisins eru hins vegar aðeins auglýst 37 tonn af sérostum í staðinn fyrir 140 tonn. Þetta eru neytendur í landinu að fara á mis við, fyrir utan það að ég er sannfærð um að ákveðin samkeppni á innanlandsmarkaði er mjög sterk og mikilvæg.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki reiðubúinn að gera eins og hv. þm. Jón Gunnarsson hefur þegar lagt til við atvinnuveganefnd, að hvetja nefndina til að flytja sérstakt þingmál til þess einfaldlega að leysa úr þessum vanda, leysa úr þessu til að koma til móts við skýran vilja Alþingis og þá hvort hann styðji okkur í nefndinni ekki til að klára þetta mál, helst fyrir 1. maí, en þá tekur gildi samningurinn við Evrópusambandið.