148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

lágmarksellilífeyrir.

[15:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er augljóslega verið að reyna að snúa út úr vegna þess að þegar tekið er tillit til heimilisuppbótar eru þessar sömu bætur einmitt 300.000 kr. Um það snerist öll umræðan á Alþingi haustið 2016. Það duldist engum manni sem hér var þá þátttakandi í umræðunni eða hefur fylgst með frá þeim tíma hversu ótrúlega miklar kjarabætur það voru, borið saman við þau kjör sem þessir sömu hópar þurftu að sæta, m.a. á tíma Samfylkingarinnar í ríkisstjórn þegar hámarksbæturnar og þær sem hv. þingmaður er að vísa til voru langt fyrir neðan 200.000 kr. á mánuði.

Þegar hæstv. ráðherra sem þá var birti hér framfærsluviðmiðin varð nú aldeilis uppi fótur og fit í þinginu vegna þess að þau voru svo mikla óravegu frá þeim bótum sem almannatryggingar tryggðu þeim sömu skjólstæðingum og þar var verið að tala til.

Staðreynd málsins er sú ef við skoðum framlög á fjárlögum til almannatrygginga yfir þann tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn blasir við mjög skýr mynd. Hún er alger forgangsröðun í þágu þeirra sem fá bætur frá almannatryggingum, hvort sem eru lífeyrisþegar eða aðrir þeir sem t.d. þiggja örorkulífeyri vegna þess að bæturnar hafa á skömmum tíma farið úr um 80 milljörðum samtals og stefna í samkvæmt nýrri fjármálaáætlun yfir 160 milljarða á ári. Þetta er skýr forgangsröðun. Hún hefur skilað sér í gríðarlega auknum kaupmætti.

En eins og ég tók fram í umræddum þætti verðum við að halda áfram að gera betur. Til þess þurfum við að skapa meiri verðmæti vegna þess að ef þessi þróun heldur áfram verður ekki innstæða, það er ekki innstæða fyrir því í ríkisfjármálunum að bæta jafn miklu við á þessum sviðum ár hvert og við höfum gert undanfarin ár. Því miður. Það er bara staðan.