148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

lágmarksellilífeyrir.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég myndi glaður taka tíma í að fara yfir stöðuna eins og Samfylkingin skildi við hana á sínum tíma. Það væri, held ég, fyrir margra hluta sakir (Gripið fram í.) mjög áhugavert. Ef hv. þingmaður vill fara út í það getum við gert það. En við lögðum á það áherslu og settum það í forgang sumarið 2013 að afnema skerðingar sem höfðu verið leiddar yfir þessa hópa.

Til samanburðar við 300.000 kr. í þessum umrædda þætti nefndi ég aðra tölu sem setur hlutina í rétt samhengi. Það verður þá að taka hana með í reikninginn til samanburðar. Það er bara ósköp einfaldlega þannig að umræðan hefur snúist um þetta að teknu tilliti til heimilisuppbótar sem sannarlega gengur eingöngu til þeirra sem búa einir og er viðurkenning á því að það er kostnaðarsamara að halda úti heimili ef maður er einn í heimili borið saman við það að deila því með öðrum. Þá kemur þessi heimilisuppbót. Um hana og að teknu tilliti til hennar hefur öll umræðan um 300.000 kr. staðið í mörg ár. Ég hélt að það væru ekki nein tíðindi sem þyrfti að fara að útskýra hér í þessum sal þar sem umræðan á uppruna sinn.