148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

upplýsingaveita stjórnvalda við Alþingi.

437. mál
[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að hér hefur verið gerð breyting á upphaflegri beiðni og skjalið prentað upp. Ég verð að segja að mér finnst það hafa verið fært til betri vegar og ætla þess vegna ekki að leggjast gegn því að þessi beiðni sé samþykkt í þingsal og greiði atkvæði með því. En ég get ekki látið hjá líða að láta þau orð falla við þessa atkvæðagreiðslu að mér þyki þingið dálítið vera að gefast upp gagnvart því að sinna því bara sjálfstætt að ganga á eftir ýmsu af því sem lagt er fyrir ýmist ráðuneyti eða, eins og í þessu tilviki, ríkisendurskoðanda, sem vissulega er gert ráð fyrir að taki einstaka mál, einstök efni til athugunar.

Þannig ætti þingið að sjálfsögðu að hafa eigin burði til þess að fara ofan í hluti. Þegar við erum farin að spyrja framkvæmdarvaldið að því hvaða ábendingar séu í skýrslum sem þingið hefur látið semja fyrir sig, eða hvað hafi orðið um frumkvæðisathuganir og annað þess háttar, (Forseti hringir.) finnst mér þingið í raun og veru algjörlega sitja með hendur í skauti og viðurkenna getuleysi sitt til þess (Forseti hringir.) að sinna eftirlitshlutverkinu.