148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. 1% skattalækkun er 1% skattalækkun sama hvort menn eru með háar eða lágar tekjur. Það er 1%. Ég hélt að jafnaðarmenn væru alltaf að tala fyrir prógressífu skattkerfi. Í slíku prógressífu skattkerfi hlýtur einhvern tímann að vera svigrúm til að lækka sjálfa skattprósentuna án þess að menn fari út í krónutöluútreikninginn. Vegna þess að ef við viljum taka það samtal til enda skulum við spyrja okkur hversu margar krónur láglaunamaðurinn greiðir í skatta borið saman við þann sem hv. þingmaður er að vísa til. Þá fáum við annað sjónarhorn á þessa sömu mynd. Aðalatriðið er að við erum að tala fyrir lægri skattbyrði fyrir alla.

Varðandi barnabæturnar er það misskilningur hjá hv. þingmanni að ekki sé gert ráð fyrir neinum ráðstöfunum til þess að verja barnabótakerfið. Þrátt fyrir þá spá sem við erum með fram undan um þróun launa og eigna fjölskyldna í landinu, þá gerum við ekki ráð fyrir því að barnabætur lækki sem þær myndu gera ef við hefðum engar ráðstafanir gert. Við erum að gera ráðstafanir til að verja það fjármagn sem fer í dag í barnabótakerfið.

Ég hef margítrekað beitt mér fyrir því að barnabætur væru leiðréttar með tilliti til þeirra tekjutenginga sem eru í kerfinu þannig að við stýrum meira fjármagni til tekjulágra fjölskyldna. Það er ekkert annað sem vakir fyrir þessari ríkisstjórn en að gera það.

Þegar hv. þingmaður tekur dæmi um tvo einstaklinga sem búa saman og eru með 470 þús. kr. á mánuði í laun þá er hann að tala um fjölskyldu sem er með 940.000 kr. í tekjur. Þegar spurt er: Er það fjölskyldan sem á að detta út úr barnabótakerfinu, þá segi ég já. Við skulum frekar lækka tekjuskattinn á þá fjölskyldu, lækka tekjuskattinn á báða þá einstaklinga og hætta að senda þeim bætur eins og þeir séu bótaþurfi í samfélaginu með í kringum 1 milljón á mánuði í tekjur fyrir heimilið. Sendum frekar bætur til þeirra sem sannarlega eru undir framfærsluviðmiðum eða rétt í kringum þau. Sendum bæturnar þangað þar sem þær eiga heima. En Samfylkingin talar fyrir því að milljón króna fjölskyldan fá bætur frá ríkinu í gegnum skattkerfi; fyrst borga tekjuskattinn, svo þiggja bæturnar.