148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er í hópi þeirra sem fylgdust með af miklum áhuga og talsverðri eftirvæntingu þegar þingið var að vinna með lög um opinber fjármál og móta þær áherslur sem þar voru. Ég verð að viðurkenna að ég hafði þá í öðru hlutverki töluverðar áhyggjur af því að aðhaldsstig þessara laga yrði ekki nægt. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að hafa haft rétt fyrir mér, þ.e. að taumhaldið í þessum lögum virðist ekki vera neitt. Stórsókn er orðið sem helst virðist vera notuð af þessum stjórnarmeirihluta, stórsókn á öllum sviðum. Það virðist raunar vera orðið sérstakt keppikefli Sjálfstæðisflokksins sem hreykt hefur sér af íhaldssemi í opinberum fjármálum að slá Íslandsmet í útgjaldaaukningu. Það þykir mér varhugavert met þó að ég sé metnaðarfullur maður sjálfur.

Hér er verið að tala um að auka útgjöld fljótt á litið um 260 milljarða frá 2017–2023 að telja, það er 36% aukning sýnist mér. Allt er þetta gert með þeim yfirlýsingum að hér ári svo vel, hagvaxtarspár séu svo hagfelldar þrátt fyrir öll varnaðarorð. Ég vil ítreka að við skulum ekki gera lítið úr því að þau varnaðarorð hafa verið óvenjusterk að þessu sinni, mun sterkari en við höfum oft áður heyrt á þessum tímapunkti og var t.d. kvartað yfir því á sínum tíma í aðdraganda 2008/2009 að ekki hefði verið nægilega skýrt varað við. Það á ekki við nú.

Fjármálaráðherra lýsti því yfir sjálfur í umræðu um fjármálastefnu fyrir ári að sennilega væri sú stefna síst of aðhaldssöm. Hér er byggt á svipuðum hagvaxtarforsendum hversu raunhæfar sem þær kunna að vera. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna þessi miklu sinnaskipti á aðeins einu ári?