148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áður talað um fyrri fjármálaáætlun og sagt að það væri mjög heppilegt að fá hugmynd um grófa skiptingu og helstu áherslur málaflokka innan málefnasviðanna. Vissulega er sagt eins og það eigi að byggja Landspítalann, þar kemur þá mjög auðveldlega fram hvar áherslan er innan þess málefnasviðs, en af mörgum þeim áherslum sem eru nefndar vantar yfirleitt kostnaðargreiningu þannig að maður sér ekki hversu stór hluti þeirrar áherslu sem lögð er innan málefnasviðanna útskýrir hækkun til þess málaflokks. Ég bið um álit hv. þingmanns á því.

Tekjur hafa einmitt aukist vegna tekjuskatts en þær auknu tekjur hafa verið bundnar í ákveðin önnur ný útgjöld. Það sem eykur á þá gagnrýni sem við höfum fengið með fjármálastefnuna og fyrr er að þær stoðir sem við höfum til að standa undir tekjum ríkissjóðs eru mjög veikar gagnvart hagsveiflunni. Það þýðir að ef einhver sveifla kemur á móti niður á við hverfa (Forseti hringir.) þessar auknu tekjur úr tekjuskattinum sem þá þegar er búið að binda í aukin útgjöld og við verðum þá í vandræðum.