148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:24]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er vert að staldra við þegar talsmenn þeirra hagsmunasamtaka sem kannski eru með puttann á púlsinum hvað þetta varðar, því að á endanum kemur þessi verðmætasköpun frá atvinnulífinu, vara okkur svo sterklega við.

Það veltir upp annarri spurningu sem snýr einmitt að þessum grunngildum. Þar eru fjögur gildi sem ég staldra helst við, fyrst festa sem ég held að ég þurfi ekki að spyrja hv. þingmann út í, það er augljóst að við erum ekki með neina festu í ríkisfjármálum þegar við erum að auka ríkisútgjöld um 36% á ekki lengri tíma en þetta. Svo er varfærnin, af því að það er ljóst að þegar varnaðarorð eru uppi um efnahagsforsendur þessarar áætlunar hljótum við að gæta ákveðinnar varkárni og auka þá útgjöldin ekki jafn mikið og raun ber vitni, hafa kannski meiri afgang en við gerum hér, og svo eru sjálfbærni og stöðugleiki. (Forseti hringir.)

Það væri áhugavert að heyra sjónarmið hv. þingmanns um það hvernig honum finnist þessi fjármálastefna ríma við grunngildi laga um opinber fjármál.