148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég lái svo sem ekki hæstv. fjármálaráðherra að vilja ekki sitja undir gagnrýni stjórnarandstöðunnar. Það færi þó vissulega betur á að svo væri og væri ákveðin virðing gagnvart umræðu þingsins um þetta mikilvæga stefnuplagg ríkisstjórnarinnar að ráðherra væri hér viðstaddur.

Það er áhugavert að ræða fjármálastefnuna því að þar birtast með mjög skýrum hætti málefnaáherslur hverrar ríkisstjórnar, bæði hvað varðar pólitískar áherslur, en ekki síður hvað varðar efnahagsstefnuna eða framlag ríkisstjórnarinnar til hagstjórnar. Það er út af fyrir sig mjög áhugavert að sjá þessar pólitísku áherslur í stefnunni. Hér hafa nefnilega náðst sögulegar sættir þeirra sem gjarnan hafa talað fyrir varfærni í ríkisfjármálum, að stilla útgjöldum ríkissjóðs í hóf og halda skattlagningu í lágmarki, og þeirra sem tala fyrir miklum ríkisafskiptum og útgjöldum, en hafa til þessa viðurkennt nauðsyn þess að fjármagna slík útgjöld með sjálfbærum hætti með hærra skattstigi en ella.

Nú hafa þessir fornu fjendur fundið töfralausn á þessum sögulega ágreiningi sínum sem gerir hvort tveggja í senn, að auka með fordæmalausum hætti ríkisútgjöldin en lækka skatta um leið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þannig samþykkt útgjaldaáherslur vinstri flokkanna, en VG hefur tekið upp skattstefnu hægri flokkanna. Það er áhugavert og verður sér í lagi áhugavert að fylgjast með hvort þessar sögulegu sættir haldist þegar harðna tekur á dalnum.

Þessi málamiðlun er gerð á kostnað ábyrgðar. Það er alveg ljóst að þeir flokkar sem að þessari ríkisstjórn standa hafa opinberað fullkomið ábyrgðarleysi sitt í stjórn ríkisfjármála. Ég ætla ekki að fara mikið út í sérstakar pólitískar áherslur þessarar ríkisfjármálaáætlunar hvað varðar einstök málefnasvið, enda eru þær áherslur að segja má nánast óbreyttar frá síðustu ríkisstjórn, bæði hvað varðar hlutfallslega skiptingu útgjalda og meginmarkmið málefnasviðanna. En vissulega er bætt í talsvert frá þeirri áætlun.

Ég ætla hins vegar fyrst og fremst að horfa til þess hvort forsendur þessarar áætlunar geti talist raunhæfar, hvort þær geti staðist og hvort það sé innstæða fyrir þeim loforðum sem hér eru veitt til lengri tíma litið.

Efnahagsþróunin á undanförnum árum hefur verið alveg einstaklega hagfelld m.a. vegna mikils uppgangs ferðaþjónustu og fordæmalítillar aukningar í kaupmætti heimilanna. Þróun flestra hagvísa hefur verið með hefðbundnum hætti með hliðsjón af þeirri þróun í hinu sveiflukennda íslenska hagkerfi. Nú eru hins vegar fjölmörg teikn á lofti um að hápunkti hagsveiflunnar hafi þegar verið náð og að tekið sé að kólna á nýjan leik í hagkerfinu, og raunar nokkuð hratt. Hægt hefur umtalsvert á fjölgun ferðamanna. Meðaldvalartími þeirra hefur heldur styst og meðaleyðsla á ferðamann hefur að sama skapi dregist saman. Lítil sem engin magnaukning hefur orðið í öðrum útflutningi allt frá árinu 2014.

Við erum á ný orðin eitt dýrasta land í heimi þrátt fyrir að landsframleiðsla hér á landi sé sambærileg við á við það sem telst að meðaltali í evruríkjunum. Horfur eru á minnkandi fjárfestingu í atvinnulífinu samhliða því sem skuldsetning atvinnulífsins hefur verið að aukast á nýjan leik og hagvöxtur að undanförnu hefur verið dreginn áfram af kröftugri einkaneyslu, en nú er skuldsetning íslenskra heimila tekin að aukast á nýjan leik og ljóst að frekari vöxtur einkaneyslunnar verður vart knúinn áfram með sjálfbærum hætti.

Það eru kannski aðrir hagvísar sem við tengjum betur við í þessum efnum. Bjórinn er dýrastur í Reykjavík, ef frá er talin Ósló. Það er alltaf góður mælikvarði á verðstig þjóða. Þetta má segja að sé hamborgaravísitala okkar Íslendinga. Það er alltaf varnaðar- eða hættumerki þegar við erum orðin jafn dýr og raun ber vitni.

Það er metfjöldi Íslendinga á ferðalagi í ár. Við sjáum raunar að aukning í ferðum um Keflavíkurflugvöll það sem af er þessu ári virðist fyrst og fremst vera knúin áfram af gríðarlegri aukningu á ferðalögum Íslendinga. Það er raunar svo samkvæmt nýjustu tölum fyrir marsmánuð að það gæti jafnvel verið um samdrátt að ræða í komu erlendra ferðamanna til landsins.

Fjöldi byggingarkrana á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið meiri í áratug eða svo og eru raunar fjölmörg önnur kunnugleg met tekin að falla sem sett voru á árunum 2006–2008. Allt eru það merki um hið sama, við erum annaðhvort í toppi hagsveiflu eða höfum þegar horft á bak þeim toppi.

Fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar byggir á ákaflega bjartsýnum efnahagsforsendum ef tekið er mið af öllum þessum teikni. Segja má að áætlunin byggi í raun á draumórum eða óskhyggju stjórnvalda fremur en ábyrgri hagstjórn. Eftir átta ára samfelldan hagvöxt er hagkerfið tekið að kólna nokkuð hratt. Það þarf ekki að fela í sér neina stórkostlega ógn, en við þessar kringumstæður er þó gríðarlega mikilvægt að stilla áætlununum ríkisins í hóf, bæði hvað varðar tekju- og gjaldaforsendur. Þær forsendur geta mjög hæglega breyst til verri vegar eins og sagan kennir okkur.

Ég er ekki einn um þá skoðun. Sömu aðvaranir er að finna í umsögnum fjármálaráðs, Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og Samtaka iðnaðarins um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar hér fyrr í vetur. Þau aðvörunarorð voru einnig höfð uppi í umræðu um fjármálastefnu síðustu ríkisstjórnar. Þannig sagði hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir, þá þingmaður í minni hluta, í síðari umr. um fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar þann 23. maí, með leyfi forseta:

„Núverandi hagvaxtarskeið frá síðari hluta árs 2010 er þegar orðið hið lengsta í lýðveldissögunni og óvarlegt að gefa sér að það standi áfram óslitið til ársins 2022. Áætlunin byggist hins vegar á því að svo verði. […] Um leið og eitthvert bakslag kemur í seglin er grundvöllur áætlunarinnar brostinn.“

Ég er sammála þessu mati hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra, þá forsætisráðherra, sagði í umræðum um fjármálastefnu síðustu ríkisstjórnar að ef eitthvað væri þá væri þessi fjármáalstefna mögulega ekki nægjanlega aðhaldssöm miðað við aðstæður. Þá var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar umtalsvert varfærnari hvað varðar útgjaldavöxt en ekki síður afgang af rekstri ríkissjóðs en nú er.

Síðan þessi orð féllu hafa spár um hagvöxt ítrekað verið endurskoðaðar niður á við, auk þess sem hagvöxtur síðasta árs reyndist umtalsvert minni en þá var gert ráð fyrir. Engu að síður hefur ríkisstjórnin ákveðið við þessar kringumstæður að auka verulega í útgjöldin, hægja á skuldaniðurgreiðslu og minnka verulega afganginn af ríkissjóði.

Í því samhengi er nauðsynlegt að horfa til þeirrar einföldu staðreyndar að bæði tekjur og gjöld ríkissjóðs eru mjög næm fyrir hagsveiflunni án þess að til komi neinar nýjar ákvarðanir stjórnmálamanna. Tekjur geta þannig dregist mjög skart saman þegar hægir á hagvexti vegna minnkandi einkaneyslu, minni fjárfestinga og minni hagnaðar fyrirtækja og að sama skapi geta útgjöld ríkissjóðs aukist töluvert vegna aukins atvinnuleysis, aukinna útgjalda til stuðnings við tekjulága, svo dæmi séu tekin.

Rétt er að hafa í huga í þessu samhengi að þó svo ekki sé ástæða til að óttast harða lendingu í hagkerfinu við þessar kringumstæður er það engu að síður svo að mýkstu lendingu hagkerfisins til þessa sem hægt er að finna dæmi um er frá árinu 2001–2003. Ef hún er spegluð yfir á rekstur ríkissjóðs nú væri líklegra að í stað uppsafnaðs afgangs af ríkissjóði upp á 143 milljarða kr. sem gert er ráð fyrir í þessari fjármálaáætlun, myndum við sjá uppsafnaðan halla upp á 100 milljarða kr. Það yrði niðurstaðan miðað við þá mýkstu lendingu sem íslenskt hagkerfi hefur gengið í gegnum eftir viðlíka efnahagsuppgang og við höfum orðið hér vitni að. Aðrar lendingar hafa verið umtalsvert harðari og leitt til mun meiri og langvinnari hallareksturs ríkissjóðs.

Það er margt sem má velta fyrir sér í tengslum við þessa fjármálaáætlun. Það er eitt sem vantar algjörlega í áherslur þessarar ríkisstjórnar. Það eru nokkrir mælikvarðar á árangur. Árangur er ekki mældur í útgjöldum. Það er ekki markmið út af fyrir sig að auka ríkisútgjöldin, það er markmiðið að bæta þjónustu við íbúa landsins, bæði í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og velferðarkerfi. Ekki er að finna marga markverða mælikvarða hvað varðar árangur af útgjaldaaukningunni sem hér birtist.

Ekki er heldur að finna neinar áherslur um hagræðingu eða skilvirkni í ríkisrekstri og er raunar áhugavert að horfa til þess að í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar við upphaf þess ríkisstjórnarsamstarfs var einmitt gríðarlega mikil áhersla lögð af hálfu þeirra flokka á að hægt væri að ná mun betri árangri í ríkisrekstrinum og stofna til sérstaks hagræðingarhóps. En merki tillagna þess hóps þeirra sjást ekki mikið í þessari fjármálaáætlun. Útgjaldaaukningin virðist vera meginmarkmið þessarar áætlunar.

Ég hef þegar í andsvörum komið inn á að áætlunin stenst engan veginn grunngildi laga um opinber fjármál, sér í lagi hvað varðar festu, sjálfbærni, varfærni og stöðugleika. Það þarf ekkert að eyða mörgum orðum í það, það er augljóst þegar svo bratt er farið í útgjaldaaukningu að þessi gildi eru látin lönd og leið.

Það má í raun og veru segja að þessi fjármálaáætlun beri ekki merki varfærni eða ábyrgðar. Hún er frekar gott merki um að veislunni er að ljúka, eftirpartíið er hafið, óráðsían sem því gjarnan fylgir er tekin við. Það er uggvænlegt þegar við horfum til þess að grundvöllurinn að þeim vinnubrögðum sem við (Forseti hringir.) ástundum hér, grundvöllurinn að lögum um opinber fjármál var einmitt reynslan af óráðsíu ríkisfjármála í (Forseti hringir.) gegnum tíðina. Sá lærdómur er að engu hafður í þessari fjármálaáætlun.