148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkur atriði. Mig langar fyrst að nefna það að auðvitað eru slegnir vissir fyrirvarar í fjármálastefnunni. Í greinargerðinni er farið yfir það hversu miklum vandkvæðum það getur verið bundið að spá upp á núll komma eitthvað prósent, 0,1% af landsframleiðslu fimm ár fram í tímann um afkomu eða skuldaþróun. Í því samhengi nefndi ég það þegar ég kynnti fjármálastefnuna að við ættum ef til vill að huga að því að horfa á eitthvert bil, sérstaklega á síðari hluti fjármálastefnutímans.

Mér finnst að öðru leyti hv. þingmaður vera að færa hér fram töluvert mikla gagnrýni á hagspárnar, á hagspárgerð á Íslandi, vegna þess að við erum í sjálfu sér ekki að gera annað í þessari áætlanagerð en að nýta þær hagspár sem eru til taks inn á áætlunartímann. Það er ekki pólitísk stefnumótun fólgin í því að nýta hagspárnar. Svo geta menn haft þá skoðun að það eigi ekki að hafa neitt traust eða neina tiltrú á hagspárgerð Hagstofunnar eða Seðlabankans eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og leggja upp með það að koma með einhverja mjög varfærna áætlun. En við erum í sjálfu sér ekki að gera neitt annað en byggja á gildandi hagspám. Mér finnst hv. þingmaður í raun og veru ekki vera að færa fram gagnrýni á þá stefnu sem við erum að ræða hér heldur meira á spágerð á Íslandi.

Svo er það þetta með fyrri lendingu, fyrri breytingar. Það er auðvitað erfitt að spegla svona hluti úr fortíðinni inn í nútímann. Ég bendi bara á það að það er auðvitað allt annað hagkerfi sem við erum með í höndunum í dag en átti við á árunum eftir 2000. Þetta er einfaldlega allt annað hagkerfi, það er sterkara. Það eru fleiri virkjanir. Það eru fleiri sem starfa í orkufrekum iðnaði. Síðan er ferðaþjónustan auðvitað annað dæmi og það er meiri verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Varðandi þau gildi sem lög um opinber fjármál vísa til þá vil ég nefna sérstaklega þá miklu skuldalækkun sem er (Forseti hringir.) gert ráð fyrir að eigi sér stað á tímabilinu til vitnis um að það er svo sannarlega verið að fylgja gildum laganna.