148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Það er alveg rétt, ég er vissulega að gagnrýna spárnar sem hér eru lagðir til grundvallar eins og fleiri hafa raunar gert og bent á um leið að þau líkön sem hér er unnið eftir eru ekkert gerð fyrir til grundvallar forsendum ríkisfjármála heldur miklu frekar til grundvallar peningastefnu Seðlabanka á hverjum tíma. Þetta eru meira og minna allt sama líkanið sem spáð er út frá og það er ágætt að hafa það í huga. Þær spár gerðu ekki ráð fyrir þessari mjúku lendingu sem ég vísaði til 2001–2003, heldur þvert á móti áframhaldandi hagvexti. Þær hinar sömu gerðu ekki ráð fyrir harðri lendingu 2008–2010, heldur þvert á móti að það yrði nokkuð mjúk lending sem á endanum reyndist vera brotlending.

Þess vegna er mikilvægt að hafa orð fjármálaráðs í huga þegar vísað er til mikilvægis varfærni við þessar kringumstæður og að gera ekki ráð fyrir því að þessar spár gangi eftir, enda væri það í fyrsta skipti í íslenskri hagsögu sem slíkar spár gengju eftir eins og hér er unnið út frá, að við værum á endanum í samfelldum 13–14 ára hagvexti. Það hefur aldrei gerst. Við vitum að hagkerfið er miklu sveiflukenndara en svo. Það er í raun og veru ekkert í grunnforsendunum í dag sem bendir til annars en að við séum í nákvæmlega sömu hagsveiflunni og verið hefur þegar við horfum til raungengis, gengisstyrkingar og nú síðast aukningar í einkaneyslu. Við erum að færast úr útgjaldadrifnum hagvexti, raunar er honum lokið fyrir nokkru síðan, yfir í einkaneysludrifinn hagvöxt. Þá vitum við, við vitum ekki hvenær, að þá styttist í endalok uppsveiflunnar. Það er einfaldlega ekki gert ráð fyrir því í þessari áætlun með nokkrum hætti.

Þess vegna held ég að við verðum einmitt að draga lærdóm af fyrri lendingum. Við verðum að gæta sérstakrar varkárni og reka ríkissjóð með myndarlegum afgangi við þessar kringumstæður.