148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég heyri hv. þingmann segja hér er að annaðhvort eigum við ekki að lækka skattana eða að við eigum að fara miklu varlegar á útgjaldahliðinni. Þá væri auðvitað ágætt að heyra hvort það er í heilbrigðismálum, vegamálum, í menntamálum eða í félagsmálunum, hvar það er sem á að halda miklu meira aftur af sér, vegna þess að það skiptir máli.

Síðan vil ég líka setja hlutina aðeins í samhengi. Setjum hlutina aðeins í samhengi þegar er verið að gagnrýna það að við höfum aðeins dregið úr afkomumarkmiðum fyrir ríkissjóð. Gefum okkur að ágreiningurinn liggi um hálft prósent af landsframleiðslu. Gefum okkur það. Það væru, hvað, 12, 14 milljarðar, einhvers staðar á bilinu 10–15 milljarðar á ári sem við ættum þá að vera með meiri afkomu á ári. En trúa menn því virkilega í þessari umræðu að þeir 10–15 milljarðar séu milljarðarnir sem ríði baggamuninn um það hvernig muni farnast inn í framtíðina, hvort við fáum mjúka lendingu eða harða, þegar hagkerfið er svo flókið fyrirbæri að það getur enginn fullyrt nokkurn skapaðan hlut um hvenær síðasti milljarðurinn sem breytir öllu leggst á vogarskálarnar?

Staðreyndin er sú í þessu samhengi að þetta eru 10–15 milljarðar í 2.500 milljarða hagkerfi. Hvað eru 10–15 milljarðar á móti 600 milljarða skuldalækkuninni sem við erum nýbúin að ráðast í? 600 milljarða skuldalækkun. Eða þeim gríðarlega tekjuauka sem hefur orðið, ekki bara út af hærri launum í þessu landi, heldur líka vegna þess að við erum nýbúin að hækka virði stöðugleikaframlaganna um rúma 70 milljarða frá því sem var áætlað í upphafi árs 2016?

Ég ætla að halda því fram að það sé verið að gera úlfalda úr mýflugu þegar menn eru að takast á um hálft prósent, 0,3%, 0,4% af landsframleiðslunni, að það vanti í heildarafkomu ríkisins, þegar slík innspýting getur átt sér stað með einni, tveimur samþykktum á stjórnarfundum í fjármálafyrirtækjum um að hefja einhverja stórframkvæmdina, lána hingað eða þangað út í hagkerfið, slíkar fjárhæðir sem geta farið að hafa sambærileg áhrif. (Forseti hringir.)

Ef við værum að safna skuldum þá hefði ég áhyggjur af þessu. En við erum að greiða upp skuldir. (Forseti hringir.) Þannig að mér finnst þetta ekki vera sannfærandi gagnrýni.