148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:01]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Við höfum rætt hér í dag þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Ég get borið vissa virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem stjórnarandstaðan reifar hér. Ég held að við getum ekkert litið fram hjá ákveðnum þáttum gagnrýni hennar á ýmis mál.

Ástand efnahags- og ríkisfjármála eru lykilþættir um afkomu okkar allra sem byggjum þetta stórbrotna land og á fáum árum hefur efnahagur landsins tekið miklum stakkaskiptum, það má jafnvel líkja síðustu tíu árum við efnahagslegan rússíbana sem er ekkert sérstaklega eftirsóknarvert. Meiri stöðugleiki núna og festa ætti að vera okkar markmið og það er það og þess vegna lítur ríkisfjármálaáætlunin svona út, meiri stöðugleiki og festa. Aðeins með því verður varinn sá mikli árangur sem við höfum náð á undanförnum árum, að við getum byggt upp okkar framtíðaráform þannig að þau geti þá staðist. Við sveiflumst með duttlungum náttúrunnar á hverjum tíma en það er samt okkar eigin ákvörðun og ákvörðun okkar í þessum sal sem ræður mestu um það hvernig þessi grundvallarþáttur samfélagsins okkar, efnahags- og ríkisfjármál, kemur til með að lenda á heimilunum og fyrirtækjunum og hvernig við ætlum að spila úr þeim spilum sem við höfum á hverjum tíma.

Í nýlegri skýrslu peningastefnunefndar er mjög rætt um þá hagvísa sem við styðjumst við í þessari áætlun og það heyri ég helst sem gagnrýni á þessa ríkisfjármálaáætlun sem hér er rædd, menn gagnrýna spárnar og líkönin. Við heyrum ekki mikla gagnrýni á þær áherslur sem þessi ríkisfjármálaáætlun leggur út. Það er ekki bein hörð gagnrýni á ýmsa þætti hennar þó að ég gæti sjálfur örugglega slegist í hóp á einhverjum sviðum í þeim efnum og öðrum ekki, en við heyrum hér fyrst og fremst gagnrýni á líkönin og spárnar. Auðvitað er ég þess ekkert umkominn, virðulegi forseti, að segja til um hvort spárnar séu hárnákvæmlega réttar og þegar við horfum fram til svo langs tíma sem við gerum í fimm ára áætlun verða örugglega frávik þegar fram í sækir.

Samt höfum við ekki betri tæki til að styðjast við, og þeir hagvísar sem við styðjumst við hér segja okkur að ástand efnahagsmála sé almennt gott og jafnvel framar vonum eins og segir í skýrslu peningastefnunefndar sem við ræddum fyrir nokkrum dögum.

Heldur hefur slaknað á spennu í hagkerfinu og ýmis spennumerki þenslu eru að minnka. Það er afar mikilvægt að takast að lenda þessu spennta hagkerfi okkar mjúklega og án kollsteypu. Það er okkar keppikefli og markmið. Ekkert er jafn hættulegt íslenskum heimilum og fyrirtækjum og kollsteypur og efnahagsáföll. Verðbólga hér á landi hefur um langan tíma verið undir markmiðum og meginvextir Seðlabankans hafa lækkað um 0,75%. Umræða um vexti og kostnað af þeim er eðlilega mikil en oftast gleymist að setja vextina í það samhengi að þeir eru yfirleitt mælikvarði á ástand efnahagsmála hverju sinni. Þannig má nú sjá þess merki að í nágrannalöndum okkar eru vextir að hækka á nýjan leik vegna þeirrar grósku sem er að verða í efnahagslífinu. Vextir sem eru 0% lýsa einmitt stöðnuðum hagkerfum. Svo hefur aldeilis ekki verið hér og hér á landi eru, eins og ég segi, vextir ákaflega vinsælt umræðuefni en við gleymum kannski að nefna í allri þessari umræðu líka að vextir ríkisbréfa eru nú í sögulegu lágmarki og raunvextir á langtímalánum hafa sjaldan eða aldrei verið lægri.

Núna er minni vöxtur í útflutningi og hefur aðeins hægt á hinum gríðarlega vexti ferðaþjónustunnar. Hvort sem við metum það gott eða slæmt hefði í það minnsta ekki verið gott að fá nýjar skattaálögur á ferðaþjónustuna á þessum tíma miðað við þær aðstæður sem við nú höfum. Við höfum sannarlega fengið mikinn búhnykk í þeim hraða vexti sem ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum og ekki síður af hagstæðum viðskiptakjörum við útlönd. Það er allt saman hluti af því sem hefur lagst með okkur á undanförnum árum. Allt þetta hefur snúist um áhrif erlendis frá þannig að við höfum fyrst og fremst um það að segja hvernig við högum okkur hér heima. Ég tel svo ekki sé um villst að sú ríkisfjármálaáætlun sem við ræðum hér og höfum lagt fram til umræðu endurspegli það að við ætlum að taka það hlutverk okkar alvarlega.

Virðulegi forseti. Ég geri þessa þætti ytri aðstæðna okkar að umtalsefni hér vegna þess að mér finnst að sú fjármálaáætlun sem við ræðum verði að fá að skoðast í því ljósi að hér hefur orðið gríðarleg kaupmáttaraukning, efnahagslífið hefur vaxið óskaplega hratt og mjög mikið og þess vegna ber að skoða þá miklu útgjaldaaukningu sem fjármálaáætlunin boðar í því ljósi að hér er úr miklu meiri verðmætum að spila og sannarlega sjást þessi merki í þessari fjármálaáætlun. Ég hafði oft orð á því á síðasta kjörtímabili þegar við vorum að koma út úr áratug stöðnunar í uppbyggingu á svo mörgum sviðum, stöðnunar þess að geta aftur tekið upp við að byggja samfélagið okkar. Það var líka boðað í kosningabaráttunni sl. haust og stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir til um það. Það endurspeglast í þessari ríkisfjármálaáætlun. Fátt ætti að koma hér á óvart. Ég vil ekki rekja í einstökum atriðum ýmsa útgjaldaflokka eða hversu mikið er verið að auka útgjöld, ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um að mælikvarðarnir eiga ekki að vera um það hversu mikið við erum að auka útgjöld heldur hvernig við verjum þeim fjármunum. Það er fyrst og fremst verkefni sem þingið verður að taka utan um í vinnu sinni um úrvinnslu á fjármálaáætlun og afgreiðslu hennar, þ.e. hvernig við verjum þessum fjármunum, hvaða markmiðum við ætlum að ná og hvaða mælistiku við ætlum að nota til þess.

Virðulegi forseti. Undir lok þessarar stuttu ræðu í fyrri umr. um fjármálaáætlun vil ég minnast á ánægjulegan atburð sem varð hér í morgun þegar ritari Alþjóðafjarskiptasambandsins afhenti hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra viðurkenningu sambandsins fyrir það að Ísland væri í fremstu röð í fjarskiptum. Hvers vegna dreg ég þetta upp hérna? Vegna þess að mælikvarðinn á bak við þau verðlaun er í einum 11 efnisflokkum. Hann er mjög víðtækur og mælir marga þætti, ekki bara tæknistig þjóðarinnar heldur t.d. meðaltal skólagöngu í árum, hlutfall þeirra sem stundað hafa menntaskólanám og hve lengi fólk hefur stundað nám, hann mælir aðgengi að tölvum og neti, hann mælir raunverulega ýmsa þætti samfélags okkar sem við metum almennt sem styrkleikamerki eða sem eftirsóknarverða þætti. Þannig verður til sú einkunn sem skilar Íslandi á þann stað að við fáum þessi verðlaun.

Það er kannski vog og mælikvarði sem við getum alveg eins horft til þegar við ræðum fjármálaáætlun til næstu fimm ára, hvaða styrk samfélagið hefur og hvaða gæði felast í samfélaginu okkar. Við ættum að vera miklu uppteknari af að tala um það en kannski ekki að tala eins og við þorum varla fram úr á morgnana af því að spárnar gætu verið kolvitlausar og næstum ekki þorandi að treysta þeim. Við höfum ekki betri mælikvarða en við leggjum hér til grundvallar en ég nefni þetta, virðulegi forseti, vegna þess að mér finnst mikilvægt að við tökum eftir því líka sem vel er gert.

Af því að ég nefndi fjarskiptamál ætla ég að leyfa mér undir lok ræðunnar að segja að eins og boðað var í kosningabaráttu og stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur voru samgöngumál og fjarskiptamál meðal þeirra mála sem átti sannarlega að leggja áherslu á. Við ætlum því að verja það sæti sem við höfum nú náð á lista Alþjóðafjarskiptasambandsins á meðal 170 þjóða og við ætlum að halda áfram uppbyggingu í þeim efnum vegna þess að fjarskiptin og virkni þeirra er farvegurinn fyrir það hvernig okkur tekst að virkja fjórðu iðnbyltinguna. Fjórða iðnbyltingin og allt sem við byggjum á henni er vitnisburður um það hvernig við ætlum að höndla framtíðina og mun skapa okkur hagvöxtinn og verðmæti sem við þurfum á að halda til lengri tíma.