148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Haraldur Benediktsson bendir hér á að ekki hafi verið mikil gagnrýni nema á módel. Ég mótmæli því og vísa í mín fyrri andsvör. Það hefur verið varað við þessum módelum, að þau séu ekki nægilega góð og of einsleit. Það hafa verið varúðarorð uppi um hagvaxtarspár og um að ástandið í hagkerfinu sé varhugavert frá þeim sem vinna á gólfinu þar. Það hafa verið uppi varúðarorð frá fjármálaráði um að undirstöður tekna ríkissjóðs séu viðkvæmar fyrir hagsveiflu, nú erum við á leið niður í hagsveiflu samkvæmt öllu því sem verið er að vinna eftir hér. Það er kjarabarátta á næsta leiti, það hefur sín áhrif. Viðbrögðin eru hækkuð útgjöld og tekjustofnar eru veiktir. Það er gagnrýnin á þessa fjármálaáætlun.

Ef samdráttur verður, gengisfall, verðbólga á tímabilinu, er ekki hægt að kenna launahækkunum um og kjarabaráttunni sem verður á næstunni. Það er hagstjórnin sem skiptir máli. Að hækka útgjöld og lækka tekjur á sama tíma, í því efnahagsástandi sem við erum í, stenst einfaldlega ekki. Slík hagstjórn hlýtur að vera ámælisverð. Ég hef ekki heyrt einn þingmann sem ég hef spurt um það mótmæla þeirri staðhæfingu minni. Að hækka útgjöld og lækka tekjur á sama tíma er ekki góð hagstjórn. Ég myndi endilega vilja fá hv. þingmann, fyrrverandi formann fjárlaganefndar, til að útskýra fyrir mér hvernig ég hef rangt fyrir mér með það.