148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má alveg vera ósammála, en það þýðir ekki endilega að maður hafi rétt fyrir sér. Fjármálaráð sagði einfaldlega að tekjustofnarnir, sem eru aðallega vaskurinn, tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja og tryggingagjaldið, væru veikir fyrir hagsveiflunni. Þegar hún fer niður á við lækka þessir tekjustofnar mjög og það er verið að veikja þessa tekjustofna með því að lækka tekjuskattinn. Það bætist við á þá lækkun á tekjum sem annars verður í hagsveiflu á niðurleið.

Það sem ég er að segja er að viðbrögðin við þessum hagvísum, við þessari hagvaxtarspá um að hagkerfið sé að kólna, eru þau að hækka útgjöld og lækka tekjur. Það að lækka skatta — kannski er verið að reyna að fara með ákveðna innspýtingu í hagkerfið, það má vera. Þá væri hægt að útskýra það á þann hátt, en samt er enn gert ráð fyrir hagvexti. Þannig að það er verið að lækka skatta í hagvexti sem ég hef alla vega ekki heyrt á ráðum sérfræðinga að sé það sem á að gera til þess að fylgja þessari sveifluleiðréttingu sem alla jafna er gert ráð fyrir í þeim módelum sem við miðum okkur við varðandi hagstjórnargeirann.

Ég spyr einfaldlega aftur: Hvernig hef ég rangt fyrir mér þegar ég segi að þessi fjármálaáætlun hækki útgjöld og veiki tekjustofna? Er það rangt hjá mér? Og ef það er rangt hjá mér, hvernig?