148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég búinn að spyrja alla stjórn hv. fjárlaganefndar um þá áætlun ríkisstjórnarinnar að hækka útgjöld og veikja tekjustofna á sama tíma. Mig langaði til að leita til hv. þingmanns sem fyrrverandi fjármálaráðherra og spyrja hvers konar hagkerfi slík hagstjórn geti staðið undir. Þú ert með þrjá aðaltekjustofna sem tekjur ríkissjóðs standa undir, sem eru mjög viðkvæmir fyrir hagsveiflum, eins og kemur fram í áliti fjármálaráðs, og verið er að veikja einn þeirra með því að lækka um 1% neðra tekjuskattsþrepið, þar koma minni tekjur. Við erum á leiðinni niður í hagsveiflu sem hefur áhrif á allar þessar þrjár stóru stoðir sem kemur til með að lækka tekjurnar enn meira. Á sama tíma er verið að auka útgjöld. Ég átta mig ekki alveg á því. Stjórn hv. fjárlaganefndar virðist fara undan í flæmingi þegar ég spyr um nákvæmlega þetta. Ég er að reyna að spyrja hana hvernig ég hafi rangt fyrir mér þegar ég segi að þetta sé í raun hagstjórn sem sé ámælisverð. Hvernig hef ég rangt fyrir mér þegar ég segi að þetta sé staðan í dag miðað við þessa fjármálaáætlun?