148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa misskilið þetta með tekjurnar og gjöldin en það kemur í raun nokkurn veginn á sama stað niður. Það fer hvort í sína áttina, hvort hækkun á gjöldum eða lækkun á sköttum sé hógvært, það kemur út á eitt þegar allt kemur til alls. En það er um að gera, rétt skal vera rétt.

Um bankaskattinn og lækkun á honum, það getur vel verið að það sé orðið tímabært að fara í lækkun á bankaskattinum. Hann var nú hugsaður þannig að það var ákveðið markmið á bak við hann. En ég hef ekki séð greiningu á því hvort við erum komin á þann stað að hann hafi náð markmiði sínu. Allt í lagi. Þegar og ef það er komið, fínt. Um þak vegna nýsköpunar, þar hef ég heyrt frá fjármála- og efnahagsráðherra að þetta hafi bara áhrif á nokkra fáa og stóra aðila. Þá velti ég fyrir mér, af hverju? Af hverju ekki að bæta aðeins í þannig að við vinnum okkur betur í haginn varðandi þá sem eru að byrja, sprotafyrirtækin, og við leggjum meiri áherslu á nýsköpunina í stað þess að skipta okkur af þeim sem geta farið á stærri markað í Evrópu og sótt um styrki þaðan og svo framvegis?

Um tryggingagjaldið, það er aftur bara nokkuð sem á að standa undir sjálfu sér og þeim verkefnum sem þar liggja undir. Ef það er of hátt núna miðað við þau verkefni sem eiga að vera þar á bak við, þá er allt í lagi að lækka það líka. Það stendur ekki undir þeirri almennu þjónustu ríkisins sem tekjuskattsprósentan liggur undir.