148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er áhugavert að hlusta á ræðu hv. þingmanns. Sjálfsagt eru fáir þingmenn í salnum, þeir eru reyndar ekki margir hér í salnum, sem augljóslega hafa lagst jafn gaumgæfilega yfir þessa fjármálaáætlun og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Það er auðvitað margt áhugavert í þessu. Hv. þingmaður hefur haft talsvert orð á þessum baneitraða kokteil mikillar útgjaldaaukningar og skattalækkunar. Það er reyndar áhugavert út af fyrir sig að sjá að það er ekki nokkurn mun að sjá á gleði Sjálfstæðisflokks eða Vinstri grænna yfir útgjaldaaukningunni. Báðir flokkar virðast álíka stoltir af þeim metum sem þar er verið að slá. En af því að ég veit að hv. þingmaður hefur farið mjög gaumgæfilega yfir þessa áætlun langar mig að spyrja hann út í hvort hann hafi einhvers staðar rekist á einhverja marktæka mælikvarða um bætta nýtingu opinbers fjár, bætta meðferð opinbers fjár, í útgjöldum ríkissjóðs. Hvort einhvers staðar sé að finna markmið um að auka framleiðni, skilvirkni og hagræði í opinberum rekstri. Þegar vel árar er auðvitað auðveldara en ella að bregðast við vandamálum ríkissjóðs eða áskorunum með því einfaldlega að auka verulega í útgjöldin á öllum sviðum eins og hér er verið að gera. En það er gríðarlega mikilvægt að einmitt á tímum góðæris sé farið vel með opinbert fé, það sé verið að nota það svigrúm og þau tækifæri sem eru til þess að bæta ríkisreksturinn.

Sjálfur hef ég ekki rekist á margar vísbendingar þess efnis að eitthvað slíkt sé hér á ferðinni en mér þætti áhugavert að heyra hvort hv. þingmaður hafi fundið einhver dæmi um það.