148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:55]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka hjartanlega undir með hv. þingmanni hvað varðar metnaðarleysi stjórnvalda þegar kemur að úrræði eins og Hugarafl er. Hér er ekki um að ræða kostnaðarsamt úrræði í geðheilbrigðismálum. Þvert á móti kostar þetta ríkissjóð ákaflega lítið á ári hverju. Þetta er eins og annað, það er eins og hv. þingmaður kom inn á, hér er gríðarlega flókið og snúið viðfangsefni á ferðinni þegar kemur að geðheilsu fólks og það eru ekki sömu úrræði sem henta öllum. Hugarafl hefur sýnt í verki að þetta úrræði hentar mörgum, virkar mjög vel fyrir ákveðinn hóp fólks, með ekki miklum tilkostnaði fyrir ríkissjóð. Mér er algjörlega óskiljanlegt að sjá það metnaðarleysi sem kemur fram í viðbrögðum hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra þegar kemur að þessu tiltekna úrræði.

En ég ætlaði að beina spurningu minni til hv. þingmanns að öðru sem ég veit að hann er mjög vel að sér í og það snýr að örorkumálunum og því fjármagni sem til þess málaflokks er beint í þessari ríkisfjármálaáætlun. Sýnist honum þar veitt nægjanlega mikið fjármagn til að standa við þau stóru fyrirheit sem gefin hafa verið um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu og bætta framfærslu fyrir örorkulífeyrisþega, sér í lagi hvað snertir það ákvæði í núverandi skilmálum, getum við sagt, örorkulífeyriskerfisins sem er hin svokallaða króna á móti krónu skerðing? Ég held að allir flokkar sem eiga sæti á þingi hafi fyrir kosningar talað mjög skýrt um að það væri forgangsmál að afnema það. Dugir sú fjárveiting sem er að finna til málaflokksins í þessari fjármálaáætlun að mati hv. þingmanns (Forseti hringir.) til að efna þau loforð?