148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get sannarlega tekið undir það með hv. þingmanni að það er algjört forgangsatriði í endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Þetta er gríðarlega vinnuletjandi fyrirkomulag. Það heldur fólki frá vinnumarkaði sem þó myndi gjarnan vilja nýta þá starfskrafta sem það hefur til atvinnuþátttöku eins og kostur er.

Ég veit að hv. þingmaður er með breiðan og góðan reynslugrunn að baki og þess vegna langar mig í seinna andsvari að spyrja hann út í allt aðra sálma og það snýr að títtræddum efnahagslegum forsendum þessarar fjármálaáætlunar. Ég veit að hv. þingmaður er sprenglærður hagfræðingur og með víðtæka reynslu þegar kemur að hagstjórn. Mér leikur forvitni á að vita, byggt á bakgrunni hans og reynslu, hvernig honum hugnast að stjórnarmeirihluti kallar það varfærni sem felist í hagstjórnarlegum markmiðum þessarar fjármálaáætlunar í ljósi þess að hér sé anað fram í einhverri blindri trú á að allt lukkist vel. Hv. þingmaður hefur ásamt þeim sem hér stendur hlýtt á varnaðarorð fjölmargra aðila sem vara við of mikilli bjartsýni í efnahagslegum forsendum en ríkisstjórnin ætlar að kaupa miða í lottóinu og vonast til þess að vinna og hafa þá efni á þeim útgjaldaloforðum sem gefin hafa verið.

Er ástæða til að treysta í blindni þeim hagspám sem hér eru lagðar til grundvallar eða er ástæða til að hlusta á þau varnaðarorð sem höfð hafa verið uppi um að framtíðin kunni að vera örlítið viðsjárverðari en þar er gert ráð fyrir?