148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að kalla eftir því að hv. þingmaður myndi fylgja eftir þeirri stífu gagnrýni á skort á stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki með einhverjum ákveðnum tillögum. Hér erum við að ræða fjármálaáætlun. Við segjum í henni að við ætlum að hækka verulega þökin fyrir endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar, við séum með það á áætlunartímabilinu til skoðunar að afnema þökin, eins og við höfum rætt um í stjórnarsáttmálanum. Í tengslum við arðgreiðslur úr orkugeiranum, frá Landsvirkjun, erum við með það sömuleiðis í vinnslu að nýta hluta arðgreiðslnanna til nýsköpunar í landinu, það gætu verið milljarðar, það gætu verið 3 milljarðar jafnvel á ári, útfærslan er öll eftir. En það er svona sem ég sé það mál. Það er alls ekki þannig að ég sé þeirrar skoðunar að við höfum gert allt sem þurfi að gera. Við erum að boða miklu meira.

Við erum að boða sókn til þess að gera umhverfið á Íslandi fyrir fyrirtæki sem vilja stunda rannsóknir og þróun enn eftirsóknarverðara. Ég vísaði til þess að við værum að fjármagna ágætlega sprotafyrirtækin, en nú þyrftum við að fara að beina sjónum okkar meira í átt að vaxtarfyrirtækjunum sem væru komin upp af sprotastiginu. Við erum að taka til hliðar í okkar áætlunum vegna væntra arðgreiðslna úr orkugeiranum marga milljarða eftir atvikum, eftir því hvernig úr því spilast þegar upp er staðið, í þessu augnamiði. Þetta eru tillögur okkar. Hvar eru tillögur hv. þingmanns sem kemur hingað upp og segir: Þið eruð ekkert að gera fyrir nýsköpun á Íslandi? Hvaða tillögur eru það sem hann er að kalla eftir að komi til framkvæmda?